Innlent

Borgin varar við svifryksmengun um áramótin

Kjartan Kjartansson skrifar
Mengun og hávaði fylgir skoteldum á gamlárskvöld og nýársnótt.
Mengun og hávaði fylgir skoteldum á gamlárskvöld og nýársnótt. Vísir/Vilhelm

Nýársdagur gæti orðið fyrsti svifryksdagur ársins í Reykjavík vegna mengunar frá skoteldum. Búist er við mengun fyrstu klukkustundir nýs árs en að styrkur hennar falli hratt þegar líður á nýársnótt. Borgaryfirvöld hvetja fólk til að sýna aðgát og huga að börnum ásamt því að ganga rétt frá flugeldarusli.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg er fólki með viðkvæm öndunarfæri, hjarta- og æðasjúkdóma og börnum ráðlagt að vera innandyra þegar mest gengur á í flugeldaskoti í kringum miðnætti og loka gluggum.

Veðurspá geri ráð fyrir suðvestanátt um 5-10 metrum á sekúndu, um fjögurra stiga hita og skúrum á miðnætti á gamlárskvöld. Vindur og úrkoma hafa áhrif á mengun. Miklar líkur eru taldar á úrkomu á nýársdag.

Þá bendir borgin gæludýraeigendum á að huga vel að dýrum þar sem mikill hávaði fylgi skoteldunum. Best sé að halda köttum inni dagana í kringum áramót og hafa hunda í ól þegar þeim er hleypt út, jafnvel aðeins út í garð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×