Innlent

Guðmundur Andri og Einar Kára í óvæntum átökum

Jakob Bjarnar skrifar
Einari þykir þetta heldur kaldar kveðjur frá félaga sínum Guðmundi Andra nú í aðdraganda jóla en Guðmundur Andri vill ekki sjá neitt sem heita má rangfærslur um fjölskyldu sína.
Einari þykir þetta heldur kaldar kveðjur frá félaga sínum Guðmundi Andra nú í aðdraganda jóla en Guðmundur Andri vill ekki sjá neitt sem heita má rangfærslur um fjölskyldu sína. visir/vilhelm

„Það flokka ekki allir undir höfðingsskap að birta skítapillur um nýútkomna bók þremur dögum fyrir jól,“ segir Einar Kárason rithöfundur og varaþingmaður gramur á Facebook-síðu skáldbróður síns og samflokksmanns í Samfylkingunni: Guðmundar Andra Thorssonar.

Áhugamenn um pólitík og bókmenntir fylgdust forviða með óvæntum átökum sem spruttu milli þeirra vopnabræðra en Guðmundur Andri fjallaði um nýja bók Einars, „Með sigg á sálinni“ – endurminningabók Friðriks Þórs Friðrikssonar kvikmyndagerðar- og sagnamanns. Væringarnar eru með þeim hætti að þær hljóta að skipta máli í bókmenntasögulegu-, sagnfræðilegu- og jafnvel pólitísku ljósi.

Guðmundur Andri hafði eitt og annað við bókina að athuga. Sagði að þar væri margt skemmtilegt og kátlegt en „þegar menn hafa á langri ævi yddað sagnamennskuna eftir því lögmáli að hafa það sem skemmtilegra reynist (ekki síst fyrir mann sjálfan) fer hins vegar ekki hjá því að heimildagildi verksins rýrni að sama skapi,“ segir Guðmundur Andri.

Hefur lítið gaman af fylleríissögum af pabba sínum

Og hann heldur áfram: „Það sé ég ekki síst vel á því sem að mér og mínum snýr þar sem ýmislegt hefur skolast til, eins og gengur. Það er náttúrlega með öllu ófyrirgefanlegt að vera hvergi nefndur á nafn þegar ýmis frægðarmenni Karfavogsins og nágrennis eru tínd til en maður var auðvitað þetta mörgum árum yngri og eftir því ósýnilegur, og svo var lítill samgangur yfir Snekkjuvoginn.“

Og þá kemur Guðmundur Andri að því sem fer helst fyrir brjóst hans:

„Ég er svo undarlega gerður að hafa lítið gaman af fylliríssögum af pabba, sem ég veit hins vegar að sumir hafa gaman af að segja og ég get lítið gert við - en ég leyfi mér samt að lýsa yfir efasemdum um að hann hafi verið blindfullur og sofandi allan tímann á frægri sérsýningu á Veldi tilfinninganna þegar kvikmyndaeftirlitið kom að sjá myndina ásamt stjórn Kvikmyndahátíðar, og aldrei séð myndina sem hann varði svo hetjulega, því þessari sýningu lýsir Thor einmitt af nokkurri nákvæmni og miklu fjöri í grein sem hann skrifaði um málið og birtist í bókinni góðu Faldafeykir,“ skrifar Guðmundur Andri.

Myndina minnir hann að Thor hafi þegar verið búinn að sjá erlendis, og gott ef það var ekki hans hugmynd að sýna hana yfirleitt.

Vinir og vopnabræður deila nú um eitt og annað sem fram kemur í bókinni Með sigg á sálinni.

„Skrýtnasta missögnin í bókinni, hvað varðar okkur í Karfavogi 40, er þó sú að Frikki hafi verið einhvers konar Primus motor í því að gefa út Íslendingasögurnar hjá Svart á hvítu um leið og ekki er þar minnst á Örnólf bróður minn, sem var einmitt slíkur primus motor þeirrar útgáfu, eins og við munum sem nálægt því verki komum.“

Að eigna sér afrek annarra

Þá segir Guðmundur Andri að betur hefði ógert látið að vilja eigna sér Felix-verðlaun þeirra Himars Arnar Hilmarssonar og Sigríðar Hagalín. Það telur Guðmundur Andri fjarri sanni. Og hann skilur heldur ekki titil bókarinnar; „vissulega hefur Frikki orðið fyrir margvíslegum áföllum um sína daga - og margoft risið á ný - en þegar Ólafur Thors talaði um að hann væri kominn með sigg á sálina vísaði hann til þess að illt umtal sem stjórnmálunum fylgir, slúður og níð hefði ekki áhrif á sig enda væri hann „kominn með sigg á sálina“. Þarna hefur snjöll líking verið tekin traustataki án mikillar umhugsunar,“ segir Guðmundur Andri meðal annars og telur að eftirgrennslanir meðfram skrásetningu hefðu skilað „betri – og jafnvel skemmtilegri bók.“

Einar er ekki kátur með gagnrýni úr óvæntri átt.visir/vilhelm

Þetta þykir Einari kaldar kveðjur. Segir það svo að titillinn þiggi tilvísun sína í Shakespeare en ekki Ólaf Thors og annað tekur hann til sem hann telur ekki standast í umfjöllun Guðmundar Andra, svo sem tal um að Listahátíð hafi bara verið „snobb í kringum Askenasí“, ekkert slíkt sé að finna í bókinni.

Gagnrýni Andra kemur Friðriki í opna skjöldu

Þá leggur Friðrik Þór orð í belg og þykir honum leitt að strjúka Guðmundi Andra andsælis. Hann segir það engu máli skipta hvort Thor sá myndina eða ekki. Hann varði tjáningarfrelsið eins og hans var von og vísa. Friðrik Þór segir að á vináttu hans og Thors hafi aldrei fallið skuggi.

„Nú man ég ekki bókina frá orði til orðs, en að ég sé að segja eitthvað á þá leið að ég hafi verið Primus mótor í því að gefa út Íslendingasögunar held ég alveg örugglega að sé oftúlkun hjá þér. Mig minnir að það standi í bókinni að þetta hafi verið ein af þeim hugmyndum sem okkur Bjössa dreymdi um að hrinda í framkvæmd, og það hafi gengið eftir eftir að ég hætti afskiptum af Svart og hvítu.“

Og þá segir Friðrik það einkennilega túlkun að hann vilji eigna sér heiðurinn af verðlaunum Hilmars Arnar og Sigríðar.

Guðmundur Andri vill ekki sitja hljóður hjá þegar um er að ræða rangfærslur um sig og fjölskyldu sína.visir/vilhelm

„Og hvernig í ósköpunum færðu út að ég sé að eigna mér heiður Hilmars Arnars og Sigríðar Hagalín fyrir þeirra framlag til Barna náttúrunnar? Sagan gengur út á að upphaflega var ekki hægt að tilnefna neina einstaka listamenn sem komu að gerð Barna náttúrunnar. Það kom til af því að íslenska valnefndin gekk þannig frá málum: Börn náttúrunnar send inn sem uppgötvun ársins og Ryð (e Lárus Ými) sem besta myndin á Íslandi 1991. Eingöngu hægt að tilnefna í undirflokkum, svo sem fyrir tónlist og leik, í aðaldeildinni sem Ryð spilaði í. Klimov þótti það skítt og tókst að fá menn til að brjóta reglurnar, sem skilaði sér í verðlaunum fyrir tónlist og tilnefningu fyrir bestu leikkonu í aðalhlutverki. Var þetta ekki einhvern veginn sona í eintakinu sem þú last?“

Vill bregðast við rangfærslum um sig og sína

Friðrik Þór vill sem sagt enginn kreditþjófur heita.

Guðmundur Andri segir þá félaga ekki taka eftir hrósinu sem hann lét falla um bókina en Einar gefur lítið fyrir það, eins og áður sagði: Skítapillur um nýútkomna bók þremur dögum fyrir jól sé einkennileg tegund höfðingsskapar.

„Ég var nú bara að bregðast við rangfærslum um fjölskyldu og vini. En hitt, að ég hefði átt að láta það ógert til að skemma ekki söluna á bókinni, þremur dögum fyrir jól - tja, það er, eins og góður maður segir stundum, „vissulega sjónarmið“,“ segir Guðmundur Andri þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×