Innlent

Ennþá vantar svæði fyrir tuttugu smáhýsi

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs segir að verið sé að skoða nokkrar staðsetningar fyrir smáhýsi.
Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs segir að verið sé að skoða nokkrar staðsetningar fyrir smáhýsi.

Ekki er búið að finna stað fyrir tuttugu smáhýsi sem borgin hefur látið hanna fyrir fólk með sértækar þarfir. Heiða Björg Hilmisdóttir formaður velferðarráðs segir að verið sé að skoða nokkrar staðsetningar. Deiliskipulagsferli hafi tafið fyrir og þá hafi komið fram áhyggjur hjá íbúum.

Tæplega sjötíu heimilislausir einstaklingar með miklar og flóknar þjónustuþarfir bíða eftir að komast að í smáhýsum sem borgin hefur sérstaklega látið hanna. Tvö slík eru á Granda og þá verða tuttugu hús sett upp en þau eru væntanleg til landsins á næstu dögum.

„Það hefur ekki gengið eins vel og við vonuðum. Ferlið var aðeins flóknara en við töldum og við þurftum að fara í deiliskipulagsferli sem tekur langan tíma. Okkur finnst mikilvægt að gera þetta rólega og í sátt við íbúa og þá viljum við að öll helsta þjónusta sé í nágrenninu,“ segir Heiða.

Deiliskipulag hefur verið auglýst á Héðinsgötu, Höfðabakka, Borgartúnsreit, Skógarhlíð og á Veðurstofuhæð. Heiða Björg segir að sumir hafi tekið hugmyndum um slíkt vel meðan aðrir hafi lýst yfir áhyggjum.

„Við erum nú þegar með tugi íbúða fyrir fólk í þessum aðstæðum sem búa út um alla borg. Það er ekki ógn við friðhelgi eða öryggi okkar,“ segir Heiða. 

Hún segir að borgin líti til Árósa þar sem sambærilegt húsnæði sé og þar sé reynslan góð.

„Reynslan af slíkum smáhýsum þar hefur verið góð. Sumum hentar betur að vera í litlum einingum og út af fyrir sig og við þurfum að virða það,“ segir Heiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×