Innlent

Íbúar á tjaldstæðinu í Laugardal komast ekki á leigumarkað

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Nokkrir íbúar á tjaldstæðinu í Laugardal hafa búið þar í þrjú ár og segjast ekki hafa kost á að fara á leigumarkað. Þeir fengu sér hitablásara í sameiginlega eldhúsaðstöðu vegna kulda þar  í vetur.

Níu manns dvelja nú á tjaldstæðinu í Laugardal og eru flestir þar vegna þess að þeir eiga ekki í önnur hús að venda.

Bergþóra Pálsdóttir, sem hefur búið á tjaldstæðinu á þriðja ár segir að þó að það væsi ekki um sig mætti aðstaðan vera betri.

„Það er ágætt að vera hérna en ég myndi vilja hafa einhverja aðra stöðu, ég er öryrki og hef ekki ráð á öðru. Hér kostar 43 þúsund krónur á mánuði og innifalið er eldhúsaðstaða og snyrting og þvottaaðstaða en þar er oft ansi kalt þannig að við settum upp hitablásara í húsin,” segir Bergþóra.

Skilyrðin fyrir að fá félagslega íbúð í Reykjavík er að viðkomandi hafi verið með lögheimili í borginni í eitt ár. Bergþóra segist komast á þann lista eftir um ár. Þangað til að hún fær íbúð segist hún því þurfa að búa í hjólhýsinu. „Alltaf á vorin þá þurfum við að fara í burtu því að þá koma túristarnir og fá allt. Þá þurfum við að fara. Ég er alltaf að vonast til að fá svæði þar sem við fáum að vera í friði.“

Fleiri á staðnum eru í sömu sporum. Margrét Friðriksdóttir, formaður Náungans hjálparsamtaka fyrir heimilislausa, gagnrýnir aðstöðuleysi á svæðinu.

„Aðstaðan hérna er ekki góð, það er enginn hiti og það er erfitt að elda. Þetta er ekkert fyrir fólk, að búa í svona aðstæðum í svona langan tíma,“ segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×