Innlent

Líkur á að öflugustu flugeldarnir hverfi í skýjabreiðu

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Rigningarsudda er spáð á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld að sögn veðurfræðings.
Rigningarsudda er spáð á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld að sögn veðurfræðings. VÍSIR/VILHELM

Rigningarsudda er spáð á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld að sögn veðurfræðings. Þá verður lágskýjað svo útlit er fyrir að öflugustu flugeldarnir fari upp fyrir ský og springi þar. Vindurinn verði þó hæfilegur til að blása svifryki í burtu.

Teitur Arason, veðurfræðingur, segir að útlit sé fyrir að það verði frostlaust á höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld. Búast megi við rigningu víðast hvar á sunnan og vestanverðu landinu.

„Það gæti verið nokkuð lág skýjahæðin í þessum rigningarsudda sem er útlit fyrir að verði. Óvissan í spánni er helst fólgin i því hversu mikill vindstyrkurinn verður en líklegustu spár gera ráð fyrir því að hann ætti ekki að verða til trafala,“ segir Teitur.

Nýjustu spár geri ráð fyrir 5 metrum á sekúndu á höfuðborgarsvæðinu. „En vindurinn ekki óþægilegur en samt nægur til að blása svifryki í burtu,“ segir Teitur.

„Þrjú síðustu áramót hefur veðrið á höfuðborgarsvæðinu verið bæði frost og logn og það er þægilegt veður til að vera í úti en það er versta veðrið fyrir svifryk,“ segir Teitur og bætir við að í ár sé veðrið betra fyrir svifryk.

„Vindurinn er hæfilegur, nógur til að loftræsta en ekkert til trafala. Það er hins vegar þessi rigningarsuddi og lág skýjahæð sem er leiðinlegasta við veðrið að þessu sinni,“ segir Teitur. Útsýni yfir flugelda í borginni verði því ekkert sérstakt.

„Það gæti orðið þannig að öflugustu flugeldarnir fari hreinlega upp í ský og springi þar,“ segir Teitur. 

Veðrið verði talsvert betra á Norður og Austurlandi. 

„Þar verður ekki úrkoma og mun hærra undir skýin. Það ætti að vera betra útsýni þar,“ segir Teitur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×