Innlent

Þakplötur fuku á Ólafsfirði

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Björgunarsveitin Tindur hefur staðið vaktina á Ólafsfirði i dag.
Björgunarsveitin Tindur hefur staðið vaktina á Ólafsfirði i dag. Vísir/vilhelm

Eftir bjartan morgun á Ólafsfirði er farið að hvessa allhressilega með mikilli ofankomu. Björgunarsveitin Tindur hefur í dag þurft að bregðast við tilkynningu um þakplötur sem fuku af iðnaðarhúsnæði í bænum og er ekki gert ráð fyrir öðru en að veðrið versni eftir því sem líður á daginn. Skyggnið er þegar orðið slæmt og færðin versnar með hverri mínútunni.

„Það verður væntanlega bara jeppafæri þegar líður á daginn,“ segir Harpa Jónsdóttir, meðlimur í Tindi.

Hún segir einnig að það sé mikil bleyta í ofankomunni, sem hefur gert það að verkum að ökumenn sem aka um Ólafsfjörð grafa bíla sína ofan í fönnina. „Við erum ekkert að moka í þessum aðstæðum, það þýðir ekki neitt,“ segir Harpa.

Hún segir þó að fyrrnefndar þakplötur séu það eina markverða sem hefur komið inn á borð björgunarsveitarinnar sem af er degi. Ólafsfirðingar hafi verið vel undir óveðrið búnir og gert ráðstafanir í gær. „Við vorum náttúrulega búin að heyra af þessu og þú þyrftir nánast að búa á tunglinu til að láta þetta koma þér á óvart. Það var búið að vara hressilega við því,“ segir Harpa. Það eigi því enginn von á óvæntu, fljúgandi trampólíni í dag.

Björgunarsveitin verði þó áfram á vaktinni. „Við strákarnir erum klárir,“ segir Harpa og hlær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.