Innlent

Þrjú snjóflóð fundin og væntanlega fleiri fallið

Kolbeinn Tumi Daðason og Margrét Helga Erlingsdóttir skrifa
Snjóflóðin þrjú sem komið hafa í ljós í dag.
Snjóflóðin þrjú sem komið hafa í ljós í dag. Veðurstofa Íslands

Sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands segir að minnsta kosti þrjú snjóflóð hafa fallið undanfarin sólarhring. Líkur séu á því að þau séu fleiri en eigi eftir að koma í ljós þegar vegir verði opnaðir og rofar til.

„Snjóflóðin hafa fallið í veðrinu og uppgötvuðust í dag þegar fólk var að fara á ferðina. Snjóflóð féll úr Súðarvíkurhlíð á veginn þar og kom í ljós þegar hann var mokaður. Svo féll snjóflóð á hringveginn í Langadal og uppgötvaðist um hádegið þegar björgunarsveitarfólk kom að því,“ segir Magni Hreinn Jónsson, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands.

Hvorugt flóðanna hafi ógnað byggð.

Meðalstór flóð

„Þetta eru einu flóðin í veðrinu sem við höfum fengið fregnir af. En við reiknum fastlega með því að fleiri snjóflóð hafi fallið. En það eru fáir á ferli og skyggni hefur verið slæmt. Þegar vegir verða opnaðir og rofar til reiknum við með að sjá töluvert fleiri snjóflóð.“

Svo sé þriðja flóðið skráð sem lítil spýja á Patreksfirði. Það féll í upphafi veðursins.

„Þetta eru meðalstór flóð, svona 30-50 metra breið. Eins metra þykk á vegi.“

Flóðin hafi ekki haft áhrif.

Óvissustig vegna snjóflóðahættu

„Súðurvíkurhlíðin var lokuð vegna veðurs og snjóflóðahættu. Og vegurinn í Langadal var lokaður vegna veðurs eins og flestir vegir á Norðurlandi,“ segir Magni Hreinn.

„Það er óvissustig í gildi vegna snjóflóðahættu á Mið-Norðurlandi og það verður áfram í gangi meðan veðrið er að ganga niður. Við höfum verið að fylgjast með aðstæðum í dreifbýlum sérstaklega. Dreifbýlið á Tröllaskaga er það sem við erum að horfa á og svo austan Eyjafjalla.“

Magni Hreinn minnir á að það hafi ekki verið neitt ferðaveður svo fólk ætti ekki að vera á ferð í fjallendi eða undir svona snjóflóðafarvegum.

„Ég held að það sé enginn að því.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.