Innlent

Einn versti sólar­hringur í sögu Lands­nets: Hægt gengur að koma flutnings­kerfi í samt horf

Eiður Þór Árnason skrifar
Um tuttugu stæður eru taldar hafa brotnað í Dalvíkurlínu.
Um tuttugu stæður eru taldar hafa brotnað í Dalvíkurlínu. Myndir/Landsnet

Miklar skemmdir hafa orðið á rafflutningskerfi Landsnets síðasta sólarhringinn og segja starfsmenn þar að um sé að ræða einn versta sólarhring í sögu fyrirtækisins. Landsnet hefur sent frá sér yfir hundrað tilkynningar um truflanir á flutningskerfinu frá því í gær. „Við höfum aldrei staðið frammi fyrir svona stórri og umfangsmikilli truflun eins og þessari,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, í samtali við Vísi.Hún segir stöðuna á flutningskerfinu vera að mestu óbreytta frá því á öðrum tímanum í dag. Húsavíkur-, Sauðárkróks-, Kópaskers- og Dalvíkurlínur eru enn úti og var reynt að koma Kópaskers- og Sauðarkrókslínu inn í dag án árangurs. Varaafl hefur verið skammtað á Sauðárkróki.Á sjöunda tímanum verður svo gerð tilraun til þess að koma tengivirkinu á Hrútártungu aftur inn á flutningsnetið.Steinunn segir að rafmagn sé komið á aftur á Austfjörðum en Vestfirðir séu enn keyrðir á díselvaraaflsstöð. Þar á eftir að skoða betur hvernig ástandið er á rafmagnslínum.Landsnet telur að það muni víða taka einhverja daga að koma rafmagnslínum í samt horf. Til að mynda sé þörf á viðamiklum viðgerðum á línum í kringum Sauðárkrók og Dalvík. Hún segir það vera í forgangi næstu daga að koma þeim línum aftur í gagnið. Dalvíkurlína, sem liggur á milli Akureyrar og Dalvíkur, leysti út klukkan átta í morgun. Er þar um að ræða gamlar tréstauralínur og segir Steinunn að um tuttugu stæður séu taldar vera brotnar.„Þannig að það mun taka einhverja daga að fara í viðgerðir. En það er ljóst að það er töluvert tjón og umtalsverður kostnaður.“

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.