Innlent

Dæmdur í fangelsi fyrir að dreifa myndum af fyrrverandi í kynlífsathöfn og hóta henni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dómur var kveðinn upp í Landsrétti í dag.
Dómur var kveðinn upp í Landsrétti í dag. Vísir/EgillA

Íslenskur karlmaður hefur verið dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir að brjóta gegn blygðunarsemi, hótanir og stórfelldar ærumeiðingar gegn fyrrverandi eiginkonu sinni með því að hafa sunnudag nokkurn í febrúar 2016 sent foreldrum, systur eiginkonunnar og fleirum mynd af eiginkonunni í kynlífsathöfn.

Skilaboðin voru send í gegn Messenger á Facebook en þau fólu í sér hótanir um að myndinni og kynlífstengdum myndböndum yrði dreift víðar.

Hótaði maðurinn að birta myndirnar og myndböndin á Facebook-síðu sinni eða senda þær til fjölskyldu viðtakenda. Sama dag og með sama hætti sendi hann nýjum unnusta konunnar sömu mynd af henni í kynlífsathöfn og skilaboð sem fólu í sér hótanir um að myndinni yrði dreift til fjölskyldu hans.

Héraðsdómur Reykjavíkur og nú Landsréttur komust að þeirri niðurstöðu að með háttsemi sinni hefði karlmaðurinn sært blygðunarsemi konunnar, móðgað hana og smánað auk þess sem hann olli hjá henni ótta um velferð sína.

Karlmaðurinn játaði brot sitt fyrir dómi. Hann hefur hlotið dóma fyrir ofbeldi og umferðarlagabrot. Til þess var tekið að langur tími leið frá því að karlmaðurinn framdi brot sín og þar til ákæra var gefin út eða nítján mánuðir þótt rannsókn hefði tekið skamma stund.

Var hann dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi og til að greiða eiginkonunni fyrrverandi 700 þúsund krónur í bætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×