Innlent

Hafði á sér eina milljón króna í reiðu­­fé

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Ökumaðurinn sem reyndi að flýja undan lögreglu var ökuréttindalaus.
Ökumaðurinn sem reyndi að flýja undan lögreglu var ökuréttindalaus. Vísir/vilhelm

Mikið var um umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu í nótt og er það sem helst ber á í dagbók lögreglu. Hátt á annan tug ökumenn voru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna og þó nokkrir voru teknir af lögreglu réttindalausir. Þá hafði einn ökumaðurinn reynt að flýja lögreglu þegar hún tendraði blá neyðarljós og ók ökumaður inn í götu af Snorrabraut á móti einstefnu.

Maður var handtekinn rétt fyrir klukkan eitt í nótt á við veitingahús í hverfi 103 og var hann vistaður í fangageymslu lögreglu vegna ástands. Þá kom í ljós að maðurinn hafði með sér rúma milljón króna í reiðufé.

Kona varð fyrir líkamsárás rétt fyrir klukkan fimm í nótt á veitingastað í miðbænum. Maður sló konuna ítrekað í andlitið og var hann handtekinn og færður á lögreglustöð. Þá var annar maður handtekinn í Breiðholti vegna gruns um líkamsárás, eignaspjöll og vörslu fíkniefna. Lögregla hafði afskipti af manninum fyrir utan verslunarmiðstöð í Breiðholti vegna slagsmála hans og konu.

Bifreið var ekið á ljósastaur í Mosfellsbæ og lenti bíllinn síðan út af. Engin slys urðu á fólki en bifreiðin er illa farin og óökufær. Þá voru maður og kona handtekin vegna gruns um ölvun við akstur. Þau fóru ekki að fyrirmælum lögreglu og eru grunuð um ofbeldi gegn opinberum starfsmanni. Þau voru vistuð í fangageymslu lögreglu fyrir rannsókn málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×