Innlent

Þrjátíu daga fangelsi fyrir að slá barn á íþróttamóti

Sylvía Hall skrifar
Atvikið átti sér stað á körfuboltamóti á síðasta ári.
Atvikið átti sér stað á körfuboltamóti á síðasta ári. Vísir/Vilhelm

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa slegið barn á íþróttamóti í höfuðið. Atvikið átti sér stað á körfuboltamóti í Hafnarfirði í aprílmánuði á síðasta ári.

Maðurinn var dæmdur fyrir minniháttar líkamsárás og brot gegn 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga sem kveður á um að hver sá sem sýnir barni yfirgang, ruddalegt eða ósiðlegt athæfi, særir það eða móðgar, skuli sæta sektum eða fangelsi allt að tveimur árum.

Maðurinn játaði brot sín fyrir dómi en taldi atvikið ekki falla undir ákvæði almennra hegningarlaga um minni háttar líkamsárás. Vísaði hann þar til myndbandsupptöku af atvikinu og fullyrti að hann hafi einungis „snert létt koll drengsins“ en ekki slegið hann.

Á myndbandsupptökunni sést maðurinn ganga inn á völlinn eftir að tveimur drengjum lendir saman og slá annan þeirra í höfuðið. Því til stuðnings var lagt fram læknisvottorð þar sem kom fram að drengurinn hefði verið með roða í hársverði eftir atvikið og aumur viðkomu.

Við ákvörðun refsingar var litið til þess að maðurinn hafði ekki áður gerst brotlegur við hegningarlög og að hann hafði skýlaust játað brot sín fyrir dómi. Háttsemi mannsins þótti þó sérstaklega gróf í ljósi þess að hann veittist að barni sem var við íþróttaiðkun með jafningjum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×