Innlent

Mikilvægt fyrir næsta útvarpsstjóra að þjóðin fái að sjá hverjir aðrir sóttu um stöðuna

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Menntamálaráðherra telur að stjórn RÚV eigi að birta lista yfir umsækjendur um starf útvarpsstjóra. Það snúist um gagnsæi og opna stjórnsýslu. Formaður stjórnar RÚV segir að afstaðan til málsins hafi ekkert breyst.



Stjórn RÚV hefur legið undir ámæli fyrir að neita að birta lista yfir umsækjendur um stöðu útvarpsstjóra. Í svari til fréttastofu frá formanni stjórnarinnar í dag kemur fram að stjórnin hafi ekkert breytt sinni afstöðu. Málin skýrist síðar í vikunni þegar umsóknarfrestur rennur út og þangað til verði ekkert sagt. Umsóknarfrestur rennur út á morgun. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sagði í Víglínunni í dag að rétt sé að birta listann.



„Mér finnst mikilvægt fyrir þann einstakling sem fær starfið að þjóðin fái að sjá hverjir aðrir sóttu um stöðuna. Þetta snýr að gagnsæi og opinni stjórnsýslu.

Ég hef tjáð stjórn RÚV þessa skoðun en þetta er ohf og ég held við ættum frekar að skoða það fyrirkomulag,“ segir Lilja. 



Heiðar Örn Sigurfinnsson varafréttastjóri RÚV baðst undan viðtali vegna málsins í dag þegar eftir því var leitað en spurt var hvort þetta væri ekki óþægilegt fyrir fréttastofuna þar sem hún þurfi oft að fá upplýsingar á grundvelli gagnsæis og upplýsingaskyldu almennings. Í skriflegu svari kom fram að fréttastofa RÚV hafi fjallað á gagnrýnin hátt um málið. Þá sé fréttastofan sjálfstæð og starfi ekki eftir þessari afstöðu stjórnar RÚV.

Tengd skjöl




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.