Innlent

„Sprenging“ í net­glæpa­tryggingum ís­lenskra fyrir­tækja

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Íslensk fyrirtæki eru í auknum mæli farin að tryggja sig fyrir tjóni vegna tölvuglæpa sem getur hlaupið á hundruðum milljóna króna. 

Netárásum á íslensk fyrirtæki hefur fjölgað hratt undanfarin misseri. Fyrirtækin hafa því mörg hver varið talsverðum peningum í það að verja sig gegn árásum. Þá eru þau líka í auknum mæli farin að skoða þann kost að tryggja sig fyrir tjóni.

Íslensku tryggingarfélögin bjóða ekki upp á tryggingar þegar kemur að tjóni vegna netglæpa. Hins vegar gera mörg erlend fyrirtæki það og hafa því íslensk fyrirtæki leitað til þeirra til að tryggja sig. 

„Við finnum alveg gríðarlega mikinn og mikla aukningu. Við erum búin að bjóða upp á þessar tryggingar í þrjú eða fjögur ár en það hefur alveg orðið sprenging núna síðustu mánuði,“ segir Lárus Hrafn Lárusson löggiltur vátryggingarmiðlari hjá Consello.

Lárus Hrafn Lárusson, löggiltur vátryggingarmiðlari hjá Consello.Vísir/baldur
Anthony Herring er breskur tryggingaráðgjafi sem hélt erindi í dag á fundi um þessi mál á Grand hóteli í Reykjavík. 

„Mörg fyrirtæki reiða sig svo mikið á net- og upplýsingatæknikerfi sín að allar truflanir á slíkum kerfum geta leitt til truflana sem aftur valda tapi vegna viðskiptamissis, sem sagt tekjutaps. Það er þá sem þetta fer virkilega að hafa áhrif á fyrirtæki. Þess vegna höfum við séð aukningu á tryggingum í Evrópu til að bæta tekjutap vegna truflunar á viðskiptum,“ segir Anthony.

Anthony Herring, yfirmaður stafrænna trygginga fyrir Norðurlöndin hjá Marsh JLT í London.Vísir/baldur
Hann segir að þegar fyrirtæki verða fyrir barðinu á tölvuþjófum geti oft tapast umtalsverðar upphæðir. 

„Við höfum séð Norsk Hydro á þessu ári. Ég held að tapið sé metið á 50-60 milljónir evra. Það var tilfelli í Danmörku fyrr á þessu ári. Demant tilkynnti hluthöfum að tapið yrði 50-60 milljónir evra. Svo það er mikið tjón þarna á ferðinni,“ segir Anthony.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×