Lífið

Hundur ók í hringi í hálftíma þangað til lögreglan kom

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Lögregla þurfti að skerast í leikinn.
Lögregla þurfti að skerast í leikinn. Mynd/Skjáskot
Hundar er ekki helst þekktir fyrir ökuhæfileika sína en hundurinn Max í Flórída í Bandaríkjunum er orðinn heimsfrægur. Bíll sem hann sat í keyrði hring eftir hring þangað til lögregla kom á vettvang.

Washington Post fjallar um málið á léttu nótunum en þar segir að atvikið hafi átt sér stað í fyrradag. Atvikaðist það þannig að eigandi Max áttaði sig á því að hann hefði villst af leið í rólegu íbúðahverfi í Port St. Lucie í Flórída.

Steig hann úr bílnum til að ná áttum og lokaði á eftir sér. Það var þá sem Max skellti bílnum í bakkgír og ekki vildi betur til en að bíllinn keyrði í hringi, aftur og aftur í um það bil hálftíma, þangað til lögregla skarst í leikinn.

Í frétt Washington Post segir að engan hafi sakað og lögregla hafi náð stjórn á aðstæðum þegar bílnum var bakkað á póstkassa. Litlar skemmdir urðu á bílnum og er eigandi Max sagður hafa lofað að bæta póstkassann.

Max er hins vegar sagður vera við hestaheilsu eftir atvikið og slapp hann við fangelsi þrátt fyrir að vera án ökuskírteinis. Myndband af akstrinum má sjá hér að neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×