Innlent

Guðlaugur Þór fundar með Sergey Lavrov á morgun

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Frá fundi Guðlaugs Þórs og Sergey Lavrov í Finnlandi í maí.
Frá fundi Guðlaugs Þórs og Sergey Lavrov í Finnlandi í maí. Mynd/Stjórnarráðið
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lenti í Moskvu í dag þar sem hann mun á morgun eiga fund með Sergey Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands. Á fundinum verða tvíliða samskipti ríkjanna til umfjöllunar, til að mynda viðskiptamál og málefni norðurslóða. Lavrov bauð Guðlaugi í opinbera heimsókn til Rússlands þegar þeir hittust í Finnlandi í maí þegar Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu.

Sjá einnig: Ísland tekur við formennsku í Norðurskautsráðinu

Þetta mun vera í fyrsta sinn í nokkurn tíma sem utanríkisráðherra Íslands fundar með utanríkisráðherra Rússlands þar í landi.

Dagskráin er nokkuð þétt á morgun og næstu daga. Fundur Guðlaugs Þórs og Lavrov fer fram í fyrramálið en síðdegis fer fram stór viðskiptaviðburður þar sem fjölmenn íslensk viðskiptasendinefnd sem er með í för mun taka þátt í. Á leiðinni til baka frá Rússlandi síðar í vikunni mun utanríkisráðherra koma við í Helsinki þar sem hann mun einnig eiga tvíhliða fund með Pekka Haavisto, utanríkisráðherra Finnlands.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×