Innlent

Ákærður fyrir tilraun til manndráps á bílastæði fyrir utan Bónus

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Árásin var gerð í Kópavogi, nánar tilgetið við Bónus á Nýbýlavegi.
Árásin var gerð í Kópavogi, nánar tilgetið við Bónus á Nýbýlavegi. Vísir/vilhelm
Héraðssaksóknari hefur ákært karlmann á þrítugsaldri fyrir tilraun til manndráps með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 4. ágúst síðastliðinn veist að manni með ofbeldi, stungið hann í höfuðið og slegið hann. Árásin átti sér stað í bíl á bílastæð við Bónus á Nýbýlavegi.

Í ákæru á hendur manninum er honum gefið að sök að hafa stungið þolanda sinn nokkrum sinnum með hníf í líkama og höfuð og slegið hann nokkrum höggum með hnefa og/eða barefli í höfuðið.

Þolandinn hlaut við það töluverða áverka; átta sentímetra langan skurð á vinstri kinn sem náði inn í vörina, átta til níu sentímetra skurð við gagnauga sem náði inn að eyra, tvo sambærilega skurði á hálsi og lítinn skurð á brjóstkassa. Þá hlaut hann einnig kinnbeinsbrot við árásina.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar. Þá er jafnframt krafist upptöku á eldhúshníf af óþekktri gerð, svo og hnífsblaði af gerðinni IKEA, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins. Þolandinn krefur manninn um tvær milljónir króna í miskabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×