Innlent

Launakostnaður sá sami þrátt fyrir fækkun sveitarstjóra

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.
Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs. aðsend

Ekki er gert ráð fyrir sparnaði vegna launakostnaðar eftir að sameining fjögurra sveitarfélaga á Austurlandi gengur í gegn, jafnvel þótt sveitarstjórum og kjörnum fulltrúum fækki.

Líkt og kunnugt er samþykktu íbúar Djúpavogs, Seyðisfjarðar, Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar eystri sameiningu í íbúakosningu í lok október. Stefnt er að því að sveitarstjórnarkosningar fari fram í nýju sameinuðu sveitarfélagi þann 18. apríl. Undirbúningur sameiningarinnar er nú í fullum gangi að sögn Björns Ingimarssonar, bæjarstjóra á Fljótsdalshéraði og formanns sameiningarnefndar.

Sjá einnig: Stefna á kosningar til sveitarstjórnar 18. apríl

„Við höfum ekki verið að horfa endilega til mikillar hagræðingar í krónum talið en við höfum verið að horfa til þess að geta í rauninni, út frá kannski svipuðum mannafla, öflugri stjórnsýslu,“ segir Björn.

Gert er ráð fyrir að ellefu fulltrúar myndi sveitarstjórn sameinaðs sveitarfélags. Þá verða þriggja manna heimastjórnir í hverju hinna fjögurra gömlu sveitarfélaga sem hafa völd til að taka ákvarðanir í afmörkuðum málum á hverju svæði. Við sameiningu fækkar sveitarstjórum úr fjórum í einn en við fjárhagslega greiningu var ekki lagt upp með að leita sparnaðartækifæra.

„Hins vegar er von á því að við séum að fá út úr þessu töluvert meira. Við erum að horfa líka á í rauninni betri kjör, við erum með færri kjörna fulltrúa ef við erum að horfa á allt nefndarfyrirkomulagið, en við erum að horfa á töluvert betri kjör fyrir kjörna fulltrúa heldur en við erum að upplifa í dag,“ segir Björn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.