Lífið

Vill flytja hina frábæru fimm heim

Björk Eiðsdóttir skrifar
Bjarney og José búa eins og er í 70 fermetra íbúð á Krít og taka stækkandi hundarnir sífellt meira pláss.
Bjarney og José búa eins og er í 70 fermetra íbúð á Krít og taka stækkandi hundarnir sífellt meira pláss.
Bjarney Hinriksdóttir er grafískur hönnuður auk þess að reka jógastúdíó í miðbæ Reykjavíkur. Hún er að eigin sögn mikill dýravinur með ríka ævintýraþrá. Þetta tvennt leiddi hana til dvalar á Krít síðastliðið vor. „Mig langaði að einbeita mér að hönnuninni og bæta við mig þekkingu. Svo ég bjó mér til mitt eigið listamannaleyfi, fann hús á Krít og dreif mig út. Þegar ég kom út fór ég strax í það að læra grísku, sem ég mæli með ef fólk er að leita að meiriháttar heilaörvun,“ segir Baddý og hlær.Bjarney ættleiddi kött frá Kattholti í fyrra og segist í framhaldi hafa farið þangað stöku sinnum sem sjálfboðaliði. „Mig langaði að halda áfram að vinna með dýrum á Krít og ég vissi að þörfin var mikil. Ég kom mér því í samband við lítil sjálfboðaliðasamtök sem vinna sleitulaust við að hjálpa dýrum sem oft eru mjög illa leikin af mannavöldum, yfirgefin af eigendum eða lifa á götunni og eru skilin eftir afskiptalaus.“Hugsaði sig ekki tvisvar um

Bjarney hafði aðeins verið á Krít í viku þegar símtal barst samtökunum frá pari sem hafði fundið fimm litla hvolpa yfirgefna við hraðbraut. „Þau höfðu tekið þá inn á hótelið en þurftu nú að fara heim og voru að leita ráða. Það eru engin opinber dýraathvörf á Krít og það hefur komið í hlut sjálfboðaliða og oft ferðamanna að hjálpa þessum dýrum. Þegar símtalið kom hugsaði ég mig ekki tvisvar um, enda var ég með aukaherbergi og stórar svalir, og hversu erfitt gæti það verið að sjá um fimm litla hvolpa?“ Það er svo sannarlega líf og fjör með fimm hressa hvolpa á heimilinu.
Bjarney komst fljótt að því að það væri allt annað að annast hunda en ketti eins og hún var orðin vön. Það þurfti að ormahreinsa hvolpana, kaupa rétt fæði og vítamín og koma þeim á réttan kjöl með því að veita þeim öryggi og hlýju. „Ég lá yfir hundamyndböndum á YouTube og las greinar til að læra hratt hvernig best væri að ala upp hunda.“ Listamannaleyfi Bjarneyjar hafði breyst í að vera hundamamma í fullu starfi og vann hún á meðan hvolparnir sváfu. „Ég hafði nægan tíma til að einbeita mér að hönnuninni fyrstu tvo mánuðina þar sem litlir hvolpar sofa mikið. Ég gerði þó lítið annað og hélt mig heima við því ég vildi ekki skilja þá eftir eina heima lengi í senn.“Dýravelferð ábótavant á Krít

Sambýlismaður Bjarneyjar, José Vásquez, kom út til Bjarneyjar í ágúst og segir hún það hafa breytt miklu að vera tvö í umönnuninni. „Við skiptum með okkur hundavöktum og unnum að okkar verkefnum. Við ákváðum þá að gera okkar allra besta við að koma hinum frábæru fimm, en hópurinn hefur gengið undir því nafni, heim til Íslands á góð heimili. Það var aldrei í boði í mínum huga að finna heimili fyrir þau á Krít. Dýravelferð hér er komin afar stutt, það er vel þekkt að eitrað sé fyrir hundum og köttum til að fækka þeim, þó eru þeir almennt á móti því að gelda dýrin. Það er erfitt að finna fólk sem vill taka að sér dýr og víða sjást hundar hlekkjaðir í stuttri keðju allan liðlangan daginn í steikjandi hita,“ segir Bjarney.„Að vera með fimm hunda á heimili er sannarlega fimmföld skilyrðislaus ást. Mér hefur oft verið hugsað til mæðra, vinkvenna minna, sem eiga mörg börn, þegar ég hef verið að telja hundana til að passa upp á að þeir séu nú allir á staðnum og svo finna netta panikktilfinningu þegar einn vantar – hefur falið sig undir sófa eða er sofandi einhvers staðar. Þeir hafa alveg séð um að halda okkur á tánum með því að flækja sig í rafmagnssnúrum, næla í heilt súkkulaðistykki eða togna á fæti. Það hefur verið krefjandi verk að halda aga þegar þeir eru allir fimm saman, þar sem hundar herma eftir öðrum hundum. Einir sér eru þeir þó algerir englar og fara eftir fyrirmælum og læra hratt.“Þau Kala, Kissi, Funi, Chania og Balos voru nefnd eftir fallegum stöðum á Krít þar sem Nuki og Eyad, parið sem fann þau, hafði ferðast.
Safna fyrir flutningnum á ­Karolina Fund

Þau Bjarney og José reka saman hönnunarfyrirtækið Brightsite sem sérhæfir sig í vef- og stafrænni hönnun en þessa stundina eru hugir þeirra og hjörtu upptekin af því markmiði að flytja hina frábæru fimm heim til Íslands í desember. „Eins og margir vita er ferlið við að ferðast með dýr til Íslands mjög kostnaðarsamt og flókið en samtals er allur kostnaðurinn við að flytja einn hund til Íslands rétt tæp hálf milljón.“Þau brugðu á það ráð að safna fyrir flutningnum á Karolina Fund. „Þar sem við störfum bæði við skapandi greinar hefur þessi reynsla verið mikill kreatífur innblástur og við vinnum nú að myndskreyttri bók sem byggð er á sögum hundanna. Þetta verður bók um lífið, kærleika, hugrekki og vináttu þar sem við grömsum í verkfærakassa okkar beggja og styðjumst við okkar eigin þekkingu úr núvitund, jóga, heimspeki og skóla lífsins.“ Á Karolina Fund getur fólk lagt til fjárhæð að eigin vali og fengið eitt og annað í staðinn. Þar er m.a. annars í boði myndskreytta bókin, kort í jóga, grafísk hönnun og vefsíðugerð og svo gefa frábærir listamenn vinnuna sína. Söfnunin gengur vel og við erum gífurlega þakklát öllu því góðhjartaða fólki sem hefur stutt okkur með fjárframlögum og er öll hjálp innilega vel þegin þar sem margt smátt gerir eitt stórt.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.