Innlent

Segir Gunn­laug og sveitar­­­stjórn ekki hafa gengið í takt

Atli Ísleifsson skrifar
Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, segir uppsögnina ekki tengjast máli tengdu Gunnlaugi A. Júlíussyni sem DV segir frá í dag.
Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, segir uppsögnina ekki tengjast máli tengdu Gunnlaugi A. Júlíussyni sem DV segir frá í dag. Mynd/James Einar Becker/Egill

Forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar segir að rekja megi uppsögn sveitarstjórans Gunnlaugs A. Júlíussonar til þess að skortur hafi verið á sameiginlegri sýn milli sveitarstjórnar og sveitarstjóra á ákveðin mál sem snúa að stjórnun og framtíðarsýn sveitarfélagsins. Greint var frá uppsögninni í gær.



Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar, segir að eins og gerist og gangi hafi komið upp ágreiningsmál þar sem aðilar hafi haft ólíka sýn á málefnin. Aðilar hafi ekki verið að ganga í takt. „Þetta er ekkert nýtt af nálinni. Í þessu tilviki var talið heillavænlegast að slíta samstarfi við sveitarstjórann. Þessi ákvörðun er ekki tekin af léttúð. Það sem mestu skiptir er að starfsemi sveitarfélagsins verði óskert og að það skapist gott vinnuumhverfi til að við getum tekist á við þau mikilvægu verkefni sem framundan eru.“



Hún segir sveitarstjórn hafa borið hagsmuni íbúa Borgarbyggðar fyrir brjósti og að sú vinna sem framundan sé innan sveitarfélagsins krefjist þess að allir séu samstiga. „Fyrir hönd sveitarstjórnar vil ég líka koma á framfæri þökkum til Gunnlaugs fyrir vel unnin störf í þágu sveitarfélagsins. Við óskum honum líka velfarnaðar á nýjum vettvangi.“

Borgarfjarðarbrúin.Vísir/Egill

Reynt á samstarfið í eitt og hálft ár

Í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla í gær og birtist á vef sveitarfélagsins sagði að „mismunandi sýn á stjórnun sveitarfélagsins [hafi gert] það að verkum að sveitarstjórn og Gunnlaugur hafi ákveðið að slíta samstarfi. „Gunnlaugur hefur frá því að hann kom til starfa fyrir sveitarfélagið unnið vel að mörgum mikilvægum málum og er honum þakkað fyrir sitt framlag. Sveitarstjórn stendur einhuga á bakvið þessa ákvörðun,“ sagði í yfirlýsingunni.



Lilja Björg segir að sveitarstjórn hafi fundið fyrir því að það væri ólík sýn milli þeirra og sveitarstjórans varðandi afgreiðslu og umræðu í tengslum við ákveðin mál. „Það var ekki eitthvað eitt sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Það hefur reynt á þetta samstarf í eitt og hálft ár. Við töldum rétt að nú skyldi leiðir skilja.“



Gunnlaugur hóf störf sem sveitarstjóri árið 2016 og var endurráðinn eftir sveitarstjórnarkosningarnar á vordögum 2018. „Þetta var rætt á sínum tíma og ákveðið að sjá til hvernig samstarfið myndi ganga,“ segir Lilja Björg.

Gunnlaugur A. Júlíusson.Vefur Borgarbyggðar

Ákvörðun tekin á óformlegum fundi fyrr í vikunni

Sveitarstjórn Borgarbyggðar fundar með formlegum hætti á um mánaðarfresti, en segir Lilja Björg að hún eigi þó í góðum samskiptum á milli funda. Segir Lilja að ákvörðun hafi verið tekin um að segja Gunnlaugi upp störfum á einum slíkum óformlegum fundi fyrr í vikunni. Formleg ákvörðun verði hins vegar tekin á sveitarstjórnarfundi síðar í dag.



Lilja Björg segir að á fundinum í dag verði einnig rætt um ráðningarferli varðandi nýjan sveitarstjóra. Segir hún líklegustu niðurstöðuna vera þá að staðan verði auglýst og vonast hún til að ráðningarferli geti hafist eins fljótt og auðið er.

Tengist ekki kæru um einelti

Aðspurð um hvort að uppsögnin tengist máli sem DV sagði frá í morgun segir Lilja Björg að svo sé ekki. Í fréttinni segir að fyrrverandi starfsmaður í stjórnunarstöðu hjá Borgarbyggð hafi kært Gunnlaug fyrir einelti til Vinnueftirlits ríkisins, en honum hafði verið sagt upp stöfum þegar hann var í veikindaleyfi eftir vinnuslys.



„Það hefur ekki borist neitt erindi til Borgarbyggðar varðandi kæru um einelti. Við erum búin að kanna það og þetta mál tengist ekkert starfslokum Gunnlaugs,“ segir Lilja Björg.

„Svo var bara game over“

Gunnlaugur vildi ekki ræða uppsögnina þegar Vísir náði tali af honum í gær. Hann birti þó færslu á Facebook þar sem hann fór yfir sín störf hjá sveitarfélaginu og segist ánægður að hafa fengið tækifæri til að kynnast því „innan frá“.



Í byrjun færslunnar segir hann frá embættisverki sem hann virðist ekki hafa átt von að yrði hans síðasta. „Það var amen eftir efninu að mitt síðasta verk hjá Borgarbyggð var að stjórna fundi í Hjálmakletti um nauðsyn svefns í verkefninu Heilsueflandi samfélag. Þar söng Soffía í Einarsnesi söngva sína, ung grunnskólabörn lásu frumsamdar sögur sem tengdust svefni og að lokum flutti Dr. Erla Björnsdóttir mjög áhugaverðan fyrirlestur um svefn. Við innleiddum Heilsueflandi samfélag haustið 2016. Á vegum þessa verkefnis hefur síðan verið staðið fyrir mörgum góðum viðburðum. Svo var bara game over,“ segir Gunnlaugur.



Í færslunni segist hann mjög ánægður og stoltur yfir þessum þremur og hálfu ári sem hann hafi starfað sem sveitarstjóri Borgarbyggðar.


Tengdar fréttir

Herör gegn dónaskap í ráðhúsinu í Borgarnesi

Sveitarstjóri Borgarbyggðar segir mikilvægt að samskipti íbúa sveitarfélagsins við starfsfólk ráðhússins batni. Það gerist of oft að óbreyttir starfsmenn verði fyrir óhefluðu orðavali eða köpuryrðum í sinn garð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×