Lífið

Pokabjörn leit dagsins ljós

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Mikil gleði var í dýragarði áströlsku borgarinnar Melbourne þegar ungur pokabjörn gægðist í fyrsta sinn út úr poka móður sinnar. Þetta er fyrsti pokabjörninn sem fæðist í Melbourne-dýragarðinum í rúm átta ár. Alla jafna verja pokabirnir fyrsta ári lífs síns í poka móður sinnar en þessi fimm mánaða gamli húnn virtist í dag sérstaklega áhugasamur um umheiminn.

„Við sáum dýrið stinga hausnum út úr pokanum, sem var ofboðslega skemmtilegt, og við sáum björninn teygja útlimina og þefa af tröllatrénu. Hann er að skoða sig um,“ sagði Maddie Jamieson, starfsmaður dýragarðsins, við AP.

Klamidía og innræktun

Ástralski pokabjarnarstofninn er í viðkvæmri stöðu. Dýrin hreiðra alla jafna um sig í skógum við strandlengjuna en hafa misst stóran hluta þeirra svæði bæði undir mannabyggð og svo vegna loftslagsbreytinga.

Hópar villtra pokabjarna eru því víða orðnir bæði einangraðir og innræktaðir. Þá hefur smithlutfall pokabjarnarklamidíu hækkað gríðarlega og víða náð hundrað prósentum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×