Innlent

Sjö prósent Ís­lendinga hafa verið í með­ferð á Vogi

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Tæplega 26 þúsund manns hafa leitað sér meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi.
Tæplega 26 þúsund manns hafa leitað sér meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi. vísir/vilhelm

Ríflega sjö prósent núlifandi Íslendinga hafa farið í meðferð á Vogi. Næstum þrír af hverjum tíu sem létu lífið á árunum 2016 og 2017 voru fyrrverandi sjúklingar á Vogi.

SÁÁ hefur gefið út viðamikið upplýsingarit um heilbrigðisþjónustu samtakanna síðustu fjörutíu ár eða frá 1977 til 2018. Tæplega 26 þúsund manns hafa leitað sér meðferðar á sjúkrahúsinu Vogi og eru karlar þar í miklum meirihluta en þriðjungur sjúklinga eru konur.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á sjúkrahúsinu, bendir á að hér á Íslandi sé einstakt tækifæri að safna saman gögnum og fá mynd af stöðunni á meðan annars staðar úti í heimi séu mörg sjúkrahús og mismunandi meðferðir við fíknisjúkdómum. Gögnin endurspegli samfélagið.

„Getum við sagt hvað er í gangi, eins og við þekkjum núna að sjá aukningu á kókaínneyslu og morfínneyslu. Við sjáum aukinn fjölda dauðsfalla af ungu fólki síðustu tvö, þrjú árin úr þessum hópi,“ segir Valgerður.

Stór tollur á ungu fólki

Í gögnunum eru teknar saman líkur á dauðsföllum á sjúklingum SÁÁ í samanburði við almennar líkur á dauðsföllum eftir aldurshópum. Skýrt kemur fram að ótímabærum dauðsföllum hjá áfengis- og vímuefnasjúklingum sem eru yngri en fjörutíu ára hefur fjölgað undanfarin þrjú ár.

Á árunum 2011 til 2015 voru til að mynda 25 prósent þeirra sem létust og voru á aldrinum 20 til 24 ára, fyrrum sjúklingar SÁÁ, en á árunum 2016 og 2017 hafði næstum helmingur þeirra sem létu lífið á þessum aldri farið í meðferð á Vogi.

„Það voru alltaf að meðaltali fimmtán manns sem voru að deyja á þessum aldri, en hafa verið um 25 sirka, og upp undir þrjátíu á ári, sem er náttúrulega stór tollur á svona ungu fólki,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.