Menning

Frábærar viðtökur í Konzerthaus

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Víkingur Heiðar og Daníel Bjarnason þakka fyrir sig í Þýskalandi.
Víkingur Heiðar og Daníel Bjarnason þakka fyrir sig í Þýskalandi.

Setið var í hverju sæti á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands með Víkingi Heiðari Ólafssyni í hinu virta tónleikahúsi Konzerthaus í Berlín á sunnudag. Tónleikagestir fögnuðu ákaft og lék Víkingur Heiðar tvö aukalög og hljómsveitin eitt.

Tónleikarnir voru hápunktur á Íslandshátíð sem haldin var þar og jafnframt lokatónleikar hljómsveitarinnar á tónleikaferð hennar um Þýskaland og Austurríki þar sem haldnir voru fimm tónleikar í þremur borgum undir stjórn Daníels Bjarnasonar.

Tónleikaferðin er sú fyrsta þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands er með íslenskan hljómsveitarstjóra og íslenskan einleikara í fararbroddi ásamt því að tvö íslensk tónverk eru í lykilhlutverki.

Víkingur Heiðar Ólafsson, staðarlistamaður í Konzerthaus, lék einleik í píanókonsert eftir Daníel Bjarnason, Processions. Víkingur er kominn í hóp fremstu einleikara á heimsvísu og hlaut á dögunum hin virtu og eftirsóttu Gramophone-verðlaun sem listamaður ársins.

Sinfóníuhljómsveitin lék einnig Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur sem er á góðri leið með að verða eitt mest flutta íslenska hljómsveitarverk síðari áratuga og hefur meðal annars hljómað í Elbphilharmonie í Hamborg og Royal Festival Hall í Lundúnum. Píanókonsert Daníels Bjarnasonar, Processions, var frumfluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 2009 og í kjölfarið hefur konsertinn hljómað víða um heim og hlotið frábæra dóma

Tónleikaferð Sinfóníuhljómsveitarinnar hófst með tónleikum í München áður en leikið var á þrennum tónleikum í Großes Festspielhaus í Salzburg.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.