Menning

Ef það er leiðindaveður þá getur maður ekki bara þagað

Jón Þórisson skrifar
Ólafur B. Schram hefur nú gefið út bók með ýmsum sögum sem hann hefur sagt ferðamönnum á leið þeirra um landið.
Ólafur B. Schram hefur nú gefið út bók með ýmsum sögum sem hann hefur sagt ferðamönnum á leið þeirra um landið.
Höpp og glöpp nefnist bók eftir Ólaf B. Schram, sem áratugum saman hefur starfað við leiðsögn erlendra ferðamanna.Undirtitill bókarinnar, Sjálfshól og svaðilfarir, er ef til vill lýsandi fyrir efnistök Ólafs í bókinni, en í henni eru yfir hundrað sögur af ferðum hans sem leiðsögumanns. Þar eru sagðar sögur af fólki, svaðilförum og spaugilegum atvikum. Þá eru í bókinni einnig frásagnir úr æsku Ólafs, af veru hans í Öræfasveit og fólkinu sem þar bjó.„Svona áttatíu prósent af þeim eiga að kitla hláturtaugarnar,“ segir Ólafur. „En svo eru þarna ýmsar upplýsingar og frásagnir um breytingar á náttúrunni og þess háttar.“ Ólafur segist ekki hafa haldið sögunum til haga um leið og atburðirnir sem hann lýsir gerðust.„Ég er búinn að vera að segja ferðamönnum þessar sögur,“ segir Ólafur. Hann bætir við að hver saga eigi sinn stað á landinu. „Ég þurfti reyndar að keyra um landið til að muna þær allar.“Hann segir að hugmyndin um að gefa þessar sögur út á bók sé fremur ný. „Það er búið að vera að róa í mér með þetta. Upphaflega féllst ég á að taka þetta saman fyrir barnabörnin. Svo fór ég birta eitthvað af þessu á Facebook í styttri útgáfu og þetta líkaði vel. Þannig að það má segja að ég hafi verið að byggja upp eftirvæntingu.“ Hann telur bókina höfða til allra. „Það er slegist um bókina þar sem eitt eintak er á heimili,“ segir hann í léttum dúr.Ólafur segir að starf leiðsögumannsins sé að vera eins konar skemmtikraftur öðrum þræði. „Ef það til dæmis er leiðindaveður þá getur maður ekki bara þagað. Þá er gott að geta sagt sögur. Þá fer maður að segja frá einhverjum ævintýrum og smám saman slípast þetta til og verður til heilleg saga.“ Hann segir sögurnar vera í frásagnarstíl. „Maður finnur hvernig sagan þarf að vera til að fólkið haldi athyglinni.“

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.