Innlent

Kompás: Vandaður fréttaskýringaþáttur fær nýtt heimili - á Vísi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kompás, vandaður fréttaskýringarþáttur, fær nýtt heimili. Á Vísi og á Stöð 2 Maraþon.
Kompás, vandaður fréttaskýringarþáttur, fær nýtt heimili. Á Vísi og á Stöð 2 Maraþon.

Á mánudag hefur göngu sína vandaður fréttaskýringaþáttur í umsjón fréttahaukanna Erlu Bjargar Gunnarsdóttur, Jóhanns K. Jóhannssonar og Nadine Guðrúnar Yaghi en framleiðandi hans er Arnar Már Jónmundsson. Þátturinn verður birtur á Vísi og Maraþoni Stöðvar 2 auk þess sem umfjöllunarefninu verða gerð skil í fréttatímum Stöðvar 2 og Bylgjunnar.

Þátturinn hefur hlotið nafnið Kompás. Nú er rúmur áratugur síðan sjónvarpsþátturinn Kompás, sem þá var í umsjá Jóhannesar Kr. Kristjánssonar og annarra fréttamanna, lauk göngu sinni á Stöð 2. Með því að endurvekja nafnið er vísað til upprunalega þáttarins, sem olli straumhvörfum í fréttaskýringum á Íslandi, þó að hinn nýi Kompás verði á ýmsan hátt með öðru sniði og feti nýjar slóðir.

„Kompás verður vettvangur fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar fyrir vandaðan fréttaskýringaþátt, sem gefur okkur tækifæri til að kafa dýpra og feta nýjar slóðir á öllum okkar miðlum,“ segir Þórir Guðmundsson ritstjóri.

„Með því að sýna hann á Vísi gefum við fólki kost á að skoða ítarefni sem tengjast umfjöllunarmáli þáttarins og nýta þannig kosti vefsins. Þeir sem vilja sjá Kompás í sjónvarpi geta gert það á efnisveitunni Stöð 2 Maraþon.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.