Innlent

Spáir stormi suðvestanlands á morgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Lítil úrkoma er sögð fylgja hvassviðrinu sem gengur yfir á morgun.
Lítil úrkoma er sögð fylgja hvassviðrinu sem gengur yfir á morgun. Vísir/Vilhelm

Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir Suðurland og Faxaflóa vegna hvassviðris eða storms sem á að gera á landinu suðvestanverðu á morgun. Hvessa á úr suðaustri í nótt og í fyrramálið og er varað við að vindhviður við fjöll getu náð 40 metrum á sekúndu.

Síðdegis á morgun er gert ráð fyrir að vindur nái almennt 13-20 m/s og allt að 18-23 m/s á stöku stað, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Lítil úrkoma á að fylgja hvassviðrinu og því er aðeins varað við því að fólk hugi að hlutum sem geta fokið eða taka á sig mikinn vind. Spáð er mun hægara veðri norðan- og austanlands á morgun.

Hvassast á að vera undir Eyjafjöllum, með suðurströndinni, á Kjalarnesi, við Hafnarfjall og í uppsveitum Borgarfjarðar. Staðbundið má búast við yfir 35 m/s einkum undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi og við Hafnarfjall.

Í dag er spáð suðlægri eða breytilegri átt með 3-8 m/s og dálitlum éljum á víð og dreif, einkum á Vesturlandi og síðar norðvestantil. Léttskýjað á að vera norðaustan- og austanlands en bæta í vind vestast á landinu í kvöld.

Frostlaust á að vera að deginum við suður- og vesturströndina en annars staðar á bilinu núll til tíu stiga frost, kaldast norðanlands.



Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.