Innlent

Spáir stormi suðvestanlands á morgun

Kjartan Kjartansson skrifar
Lítil úrkoma er sögð fylgja hvassviðrinu sem gengur yfir á morgun.
Lítil úrkoma er sögð fylgja hvassviðrinu sem gengur yfir á morgun. Vísir/Vilhelm
Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir Suðurland og Faxaflóa vegna hvassviðris eða storms sem á að gera á landinu suðvestanverðu á morgun. Hvessa á úr suðaustri í nótt og í fyrramálið og er varað við að vindhviður við fjöll getu náð 40 metrum á sekúndu.

Síðdegis á morgun er gert ráð fyrir að vindur nái almennt 13-20 m/s og allt að 18-23 m/s á stöku stað, að því er segir á vef Veðurstofu Íslands. Lítil úrkoma á að fylgja hvassviðrinu og því er aðeins varað við því að fólk hugi að hlutum sem geta fokið eða taka á sig mikinn vind. Spáð er mun hægara veðri norðan- og austanlands á morgun.

Hvassast á að vera undir Eyjafjöllum, með suðurströndinni, á Kjalarnesi, við Hafnarfjall og í uppsveitum Borgarfjarðar. Staðbundið má búast við yfir 35 m/s einkum undir Eyjafjöllum, á Kjalarnesi og við Hafnarfjall.

Í dag er spáð suðlægri eða breytilegri átt með 3-8 m/s og dálitlum éljum á víð og dreif, einkum á Vesturlandi og síðar norðvestantil. Léttskýjað á að vera norðaustan- og austanlands en bæta í vind vestast á landinu í kvöld.

Frostlaust á að vera að deginum við suður- og vesturströndina en annars staðar á bilinu núll til tíu stiga frost, kaldast norðanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×