Innlent

Fjölmargir óku fram hjá slösuðum ökumanni sem velti bíl sínum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vetrarfærð er í öllum landshlutum en þó er greiðfært á köflum um suðvestan – og vestanvert landið. Flughálka er í Húnavatnssýslum og þæfingur á Mjóafjarðarheiði og á Dynjandisheiði að því er segir á vef Vegagerðarinnar.
Vetrarfærð er í öllum landshlutum en þó er greiðfært á köflum um suðvestan – og vestanvert landið. Flughálka er í Húnavatnssýslum og þæfingur á Mjóafjarðarheiði og á Dynjandisheiði að því er segir á vef Vegagerðarinnar. vísir/vilhelm
Umferðaróhapp varð í Blönduhlíð í Skagafirði í gær þar sem bíll fór útaf hálum vegi og valt. Lögreglan á Norðurlandi vestra greinir frá þessu og segir nokkur umferðaróhöpp hafa orðið í gær og í dag vegna mikillar hálku víða á vegum.

Ökumaður bílsins sem valt komst að sögn lögreglu af sjálfsdáum upp á veg. Þar beið hann í tíu mínútur þar til vegfarandi stöðvaði til að huga að manninum.

„Á þeim tíma óku fjölmargir bílar fram hjá viðkomandi ökumanni þrátt fyrir að hann hafi verið sýnilega slasaður og þurft aðstoð. Lögreglan biðlar til fólks að í tilvikum sem þessum sé stöðvað strax og viðkomandi veitt sú aðstoð sem hægt er hverju sinni og jafnframt kallað strax eftir aðstoð viðbragðsaðila á vettvang.“

Lögreglan minnir á að enginn viti hver sé næstur.

„Og ekkert okkar vill að við, börnin okkar, einhver nákomin eða í raun hver sem er þurfi að upplifa það að ekið sé framhjá viðkomandi án þess að veita aðstoð og kalla til viðbragðsaðila í tilfellum sem þessum. Slíkt er með öllu óboðlegt.“

Meðfylgjandi mynd var tekinn við Varmahlíð í dag og sýnir mun á veghita (-8,7) og lofthita (0) og þar með þá hættu sem getur skapast á ísingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×