Lífið

Varpa fram spurningum um eitraða karlmennsku

Steingerður Sonja Þórisdóttir skrifar
Klemens stíliseraði sjálfur myndbandið með fatahönnuðinum Hörpu Einarsdóttur.
Klemens stíliseraði sjálfur myndbandið með fatahönnuðinum Hörpu Einarsdóttur. Fréttablaðið/Anton Brink
Síðastliðinn mánudag kom út myndband við lagið Klámstrákur með Hatara. Klemens Hannigan, annar söngvari sveitarinnar, var listrænn stjórnandi við gerð myndbandsins en hann segir það ádeilu á stöðu karlmannsins í nútíma samfélagi. Honum finnst mikilvægt að hefja umræðuna, hvort sem það er um klámfíkn, sjálfsmynd, narsissisma og eða þörfina til að sættast við sjálfan sig.

Skömm, sjálfsvorkunn og egó

„Í myndbandinu vörpum við fram spurningum um eitraða karlmennsku og sjálfsmynd tuttugustu og fyrstu aldar karlmannsins. Ég er að líta inn á við og skoða hvar ég stend í minni kynverund og -vitund. Hvernig mér finnst ég passa inn í samfélagið. Í myndbandinu snertum við á þemum á borð við skömm, sjálfsvorkunn og egóið,“ segir Klemens.Karen Briem og Andri Hrafn Unnarsson hafa verið sérlegir stílistar bandsins til þessa en hafa verið mikið erlendis undanfarið. Klemens fékk því fatahönnuðinn og listakonuna Hörpu Einarsdóttur til liðs við sig og stíliseruðu þau útlit og klæðnað í sameiningu. Hljómsveitin notaði einmitt mikið af flíkum frá merki Hörpu, Myrka, þegar þeir komu fram í Tel Avív um árið.„Harpa steig inn mjög sterk. Svo leikstýrðum við Baldvin Vernharðsson og klipptum myndbandið. Áhorfendur geta svo túlkað myndbandið á mismunandi vegu. Hvort sem þá að Matthías sé í hlutverki geðlæknis og ég sjúklingur og hann sé í raun að reyna að lækna mig af klámstrákseinkennum eða við séum tvær hliðar á sama einstaklingnum að berjast í togstreitu.“Langur súlufimistími

Klemens fór í einkatíma í súlufimi hjá Eríal Pole þar sem hann lærði réttu handtökin hjá Guðrúnu Helgu Reynisdóttur, en hann sýnir glæsilega takta í myndbandinu.„Það gekk mjög vel. Við vorum að dilla okkur og hnykla alls konar vöðva í líkamanum sem maður notar ekki dagsdaglega.“Hve lengi þurftir þú að æfa fyrir myndbandið?„Ég fór bara í einn tíma.“Bara einn tíma?„Já, en hann var mjög langur. Við vorum í fjórar vikur í einangrun á Svalbarða þar sem ég lærði súlufimi af mikilli nákvæmni fyrir myndbandið. Stúderaði „pole fitness“ í bak og fyrir með Eríal pole.“Hatarakommúnan

En hvar var myndbandið gert?„Bara í stofunni heima og í skurðstofunni okkar. Þetta var skurðstofa 3 í höfuðstöðvum Svikamyllu ehf. þar sem allir sem starfa með Hatara eða eru á launaskrá hjá fyrirtækinu verða að búa saman í kommúnu. Þau fá ekkert um það að segja,“ segir Klemens.Klámstrákur var frumsýnt á heimasíðu breska götublaðsins Metro, sem er alls ótengt veitingastaðnum hérlendis.„Sunday Times var ekki að sýna þessu nógu mikinn áhuga þannig að við ákváðum að frumsýna á síðu Metro.“Næst spilar hljómsveitin á Ice­land Airwaves en svo munu stórir útgáfutónleikar fara fram í febrúar til að fagna sveitarinnar fyrstu breiðskífu, Neyslutrans. Áður hafði hún þó gefið út stuttskífuna Neysluvara.„Við spyrjum okkur spurninga um neysluhyggju og samfélagið sem við búum í á nýju plötunni.“Vegan ostakökur frá aðdáendum

Í kjölfarið fer sveitin í Evróputúr sem fengið hefur yfirskriftina Europe will crumble, það verða tveir tveggja vikna túrar. Klemens segir hljómsveitina þakkláta þeim dyggu aðdáendum sem hún á hvarvetna um heiminn.„Við eigum góða aðdáendur sem fylgja okkur af móð. Okkur er boðið út um allan heim. Svo kemur fólk með bakaðar vegan ostakökur og býður okkur í kökuboð eftir tónleika. Í kringum Eurovision var þetta kannski flóknara og við vorum að upplifa meira áreiti og ógnandi tilburði frá þeim sem voru ósammála okkur. Núna er minna um það.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.