Innlent

„Allar reglur voru brotnar sem hægt var að brjóta“

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Atli Rafn ásamt lögmanni sínum, Einari Þór Sverrissyni, við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Atli Rafn ásamt lögmanni sínum, Einari Þór Sverrissyni, við aðalmeðferð í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fréttablaðið/ERNIR

Lögmaður Atla Rafns Sigurðssonar leikara segir að niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Atla Rafns gegn Borgarleikhúsinu sé ánægjuleg. Málið hafi verið ömurlegt og með dómnum sé ljóst að Borgarleikhússtjóri hafi brotið „með alvarlegum hætti“ gegn Atla Rafni.

Kristín Eysteinsdóttir Borgarleikhússtjóri og Leikfélag Reykjavíkur voru í dag dæmd til að greiða Atla Rafni samtals 5,5 milljónir í bætur vegna uppsagnar hans úr Borgarleikhúsinu í desember 2017. Atli Rafn taldi uppsögnina hafa verið ólögmæta en leikhússtjóri byggði hana á tilkynningum um meinta kynferðislega áreitni hans. Hann krafðist 13 milljóna í bætur.

Atli Rafn vildi ekki tjá sig um dóminn þegar Vísir náði af honum tali í dag en vísaði á lögmann sinn, Einar Þór Sverrisson.

„Niðurstaðan er ánægjuleg. Það er ánægjulegt að það sé komin niðurstaða og hún sé eins og hún er,“ segir Einar í samtali við Vísi.

„Maður taldi að þetta færi á þennan veg, fyrst að staðið var að þessu með þeim hætti sem var gert. Allar reglur voru brotnar sem hægt var að brjóta í málinu. Þetta var ömurlegt mál og ömurlegt að apparat eins og Leikfélag Reykjavíkur hafi hagað sér með þessum hætti.“

Sjá einnig: Atli Rafn sagðist hafa verið haldið í algjöru myrkri um ásakanir

Dómurinn í málinu hefur ekki verið birtur en Einar segir að með honum sé ljóst að Borgarleikhússtjóri hafi brotið gegn Atla Rafni.

„Það sem er aðalatriðið í þessu er að Kristín er dæmd með leikfélaginu. Það þýðir það, eins og kemur fram í dómnum, að það var hún sem braut með þessum alvarlega hætti gegn Atla og fær að líða fyrir það með dómsorðinu.“

Í samþykkt stjórnar LR, sem send var til fjölmiðla eftir að dómur var kveðinn upp í dag, kemur fram að stjórnin líti svo á að „óvissa ríki um túlkun laga sem tryggja eiga vellíðan og öruggi starfsfólks“. Því sé til skoðunar að áfrýja dómnum til Landsréttar. Að öðru leyti muni stjórnendur Borgarleikhússins ekki tjá sig um málið.


Tengdar fréttir

Atli Rafn stefnir Persónuvernd

Atli Rafn Sigurðsson leikari hefur stefnt Persónuvernd og gerir þá kröfu að úrskurður stofnunarinnar frá 15. október í fyrra verði felldur úr gildi.

Deildu um hvort reglum hefði verið fylgt við uppsögn Atla Rafns

Lögmaður Borgarleikhússins spurði hvort því hafi verið skylt að halda Atla Rafni í vinnu eftir að ásakanir um kynferðislega áreitni komu fram. Lögmaður leikarans sagði að mannorði hans hefði verið kálað með uppsögn hans árið 2017.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.