Innlent

Norðurlandaráð samþykkti aukið samstarf um samfélagsöryggi

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Oddný í ræðustól á þinginu.
Oddný í ræðustól á þinginu. Mynd/Norðurlandaráð
Stefna Norðurlandaráðs um samfélagsöryggi var samþykkt samhljóða á þingi ráðsins í Stokkhólmi í gær. Oddný Harðardóttir, sem sat í starfshópi sem vann stefnuna, segir að margt annað en stríðsátök geti ógnað samfélagsöryggi.

„Loftslagsváin með ofsaveðrum, skógareldum og flóðum, heimsfaraldur, stórslys og tölvuárásir. Allt þetta og meira til getur ógnað orkuöryggi og matvælaöryggi,“ segir Oddný.

Hún segir að Norðurlöndin standi betur að vígi með samvinnu á þessu sviði. „Það þarf samt að haga málum þannig að okkar frjálsu samfélögum og mannréttindum sé ekki ógnað í nafni öryggis.“

Það hafi verið samhljóma álit þeirra sérfræðinga og embættismanna sem rætt hafi við starfshópinn að aukið norrænt samstarf á sviði samfélagsöryggis væri til góða.

„Kannanir hafa sýnt fram á mikinn stuðning almennings við norrænt samstarf um öryggismál. Það hefur hins vegar skort pólitíska forystu. Með þessari stefnu er Norðurlandaráð að veita Norrænu ráðherranefndinni umboð á þessum sviðum,“ segir Oddný.

Þá leggur hún áherslu á að efla þurfi norrænt samstarf um frið, friðsælar lausnir og fyrirbyggjandi aðgerðir gegn átökum.

Í stefnunni er einnig fjallað um lögreglusamstarf, samstarf um heilbrigðismál auk samstarfs á sviði almannavarna, björgunarsveita og neyðarboðskipta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×