Innlent

Landspítalinn þarf um milljarð í launabætur frá ríkinu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar

Launabætur ríkisins til Landspítalans eru vanáætlaðar um allt að milljarð á ári að sögn forstjórans. Hann segir að aðhaldsaðgerðir spítalans eigi að skila um tveimur og hálfum milljarði í sparnað á næsta ári. Þá verður fólki fækkað í einhverjum tilvikum í gegnum starfsmannaveltu.

Halli á rekstri Landspítalans á síðasta ári var um einn komma fjórir milljarða króna. Þá er ríflega sjötíu prósent af kostnaði spítalans til kominn vegna launakostnaðar. Páll Matthíasson forstjóri spítalans segir að það skorti umtalsvert fjármagn í launabætur frá ríkinu.

„Við sjáum það þegar ýmsir kjarasamningar eru teknir saman að það fjármagn sem uppá vantar til að standa straum að launakostnaði er nálægt milljarði á ári,“ segir Páll.

Páll segir að kjarasamningurinn sem gerður var við lækna árið 2015 vegi  þarna þyngst. Hann á von á því að það komi fljótlega í ljós hvort spítalinn fái þetta fjármagn.

„Það kemur í ljós í síðasta lagi þegar fjárlög verða samþykkt,“ segir Páll.  

 Hann kynnti viðamiklar aðhaldsaðgerðir á spítalanum fyrir helgi og segir að meðal þess sem verði skorið niður verði svokallað Hekluverkefni sem ráðist var í til að halda í fólk í vaktavinnu. Kostnaðurinn nemi hundruðum milljóna á ári. Það þurfi hins vegar að finna nýja lausn. 

„Þetta þarf að fjármagna og við teljum brýnt að skoða hvernig það er hægt,“ segir Páll.

Þá verður launakostnaður lækkaður á spítalanum.

„Þegar að yfir sjötíu prósent af kostnaði spítalans er launakostnaður þá verðum við líka að skoða vaktafyrirkomulag, hvernig vinnan er skipulögð og nota starfsmannaveltu í einhverjum tilfellum til að fækka fólki,“ segir hann.

Páll segir að þrátt fyrir þennan vanda sé spítalinn vel rekinn.

Í skýrslu sem gerð var fyrir stjórnvöld árið 2016 kom fram að spítalinn er mun betur rekinn en sambærilegir spítalar í Svíþjóð, þar munar allt að helming,“ segir Páll.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.