Innlent

Skólahald í Korpu mun leggjast af

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Nemendum Kelduskóla hefur fækkað í starfsstöðinni í Korpu síðustu ár.
Nemendum Kelduskóla hefur fækkað í starfsstöðinni í Korpu síðustu ár. Fréttablaðið/Ernir
Skólahald í Korpu mun leggjast af, að minnsta kosti tímabundið, samkvæmt tillögu meirihluta skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur um breytingar á skólahaldi í norðanverðum Grafarvogi. Tillagan verður lögð fyrir á fundi ráðsins á morgun en með henni er lagt til að tveir skólar verði í norðanverðum Grafarvogi fyrir nemendur í 1. til 7. bekk, annars vegar í Borgarhverfi og hins vegar í Engjahverfi. Þá verður einn sameiginlegur skóli á unglingastigi fyrir 8. til 10. bekk. Talið er að með þessu sparist um 200 milljónir á ári.

Að sögn Skúla Helgasonar, formanns skóla- og frístundaráðs, er markmið tillögunnar að styrkja skóla- og frístundastarf í hverfinu og að bregðast við stöðugri fækkun nemenda sem þar hefur verið á umliðnum árum. Áform um breytingar á skipulagi grunnskóla í hverfinu hafa verið umdeild líkt og fréttastofa hefur fjallað um áður.

Sjá einnig: Vilja að rekstur grunnskóla í Staðahverfi verði tryggður til frambúðar

Með breytingunum er gert ráð fyrir að á bilinu 260-270 nemendur yrðu í hverjum skóla. Skólahald myndi með þessu leggjast af í Korpu en nemendum boðin skólavist í Engjaskóla þar sem öll yngri börn á skólaaldri myndu ganga í sama skóla. Þá er gert ráð fyrir að tryggður verði skólaakstur eða strætókort til frjálsra afnota þar til fjöldi nemenda í Staðahverfi hefur náð 150 nemendum í aldurshópnum 6 til 12 ára.

Með tillögunni er að sögn Skúla verið að bregðast við fækkun nemenda og er talið óábyrgt af borginni að halda úti rekstri skóla sem ekki eru sjálfbærar einingar. Þá verði sameinaður unglingaskóli í Vík svokallaður „nýsköpunarskóli“ þar sem lögð verði áhersla meðal annars á frumkvöðlanám, fjölbreytta sköpun og gagnrýni.

„Staðreyndin er sú að nemendum í Korpu hefur fækkað verulega undanfarinn áratug, þar eru nú einungis 59 börn og hefur fækkað um meira en helming á síðastliðnum sjö árum,“ er haft eftir Skúla í tilkynningu frá borginni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.