Innlent

Skipar samráðsnefnd um fiskeldi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Vísir/Vilhelm

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað samráðsnefnd um fiskeldi. Nefndin mun meðal annars hafa það hlutverk að meta forsendur og úrvinnslu gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggist á. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu. Haft er eftir Kristjáni Þór að ákvörðun um stofnun nefndarinnar byggi á þeirri hugsun að stuðla verði að „nauðsynlegu samráði um uppbyggingu greinarinnar.“ Þannig eigi vísindin, hagsmunaaðilar og stjórnvöld sameiginlegan vettvang til skoðanaskipta um þá uppbyggingu sem fyrirhuguð er í fiskeldi.

Kristján Skarphéðinsson ráðuneytisstjóri er formaður nefndarinnar en í henni sitja einnig Bjarni Jónsson, tilnefndur af umhverfis- og auðlindaráðuneyti, Guðrún Sigurjónsdóttir, tilnefnd af Landssambandi veiðifélaga, Ragnar Jóhannsson, tilnefndur af Hafrannsóknarstofnun og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, tilnefnd af Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi. 

„Með þessari nefnd erum við jafnframt að fylgja eftir þeirri ráðgjöf okkar helstu nágrannalanda, sem eru komin mun lengra en við Íslendingar í að byggja upp öflugt fiskeldi, að það sé lykilatriði að stuðla að náinni samvinnu þeirra lykilþátta sem koma að uppbyggingu greinarinnar,“ er meðal annars haft eftir Kristjáni Þór í tilkynningunni. „Ég tel augljóst að við getum látið þessa lykilþætti vinna betur saman og ég vind vonir við að samráðsnefndin sé mikilvægt skref í þá veru.“

Landsamband fiskeldisstöðva gekk til liðs við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi í desember í fyrra. Varamenn í nefndinni eru þau Unnur Brá Konráðsdóttir, Álfheiður Ingadóttir, Elías Blöndal Guðjónsson, Kristján Þórarinsson, Sólveig Rósa Ólafsdóttir og Karl Óttar Pétursson.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.