Innlent

Hindíkennsla í Háskólanum

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands.
Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands. VÍSIR/VILHELM
 Nám hófst í hindí við Háskóla Íslands í haust og á bilinu 10 til 15 nemendur eru skráðir í fyrstu áfangana. Hindíkennslan sjálf er fyrir byrjendur en námskeið um menningu og samfélag Indlands verður kennt samhliða.

Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands, segir að námskeiðin séu samstarfsverkefni háskólans og indverska sendiráðsins. Sendiráðið útvegaði kennara og greiðir honum laun í tvö ár og háskólinn sér um aðstöðuna. Námið er einnig kennt í samstarfi við Endurmenntun háskólans til að fleiri geti nýtt sér það. Að sögn Eyjólfs verður framhaldið metið að tveimur árum liðnum, út frá því hvernig gengið hefur og aðsókn að námskeiðunum.

„Við rennum svolítið blint í sjóinn með þetta,“ segir Eyjólfur. „Hindí hefur aldrei verið kennt á Íslandi áður.“

Meira en 340 milljónir hafa hindí sem móðurmál og er það útbreiddasta samskiptamál Indlands. Utan Indlands er hindí hins vegar ekki mjög útbreitt. Eyjólfur segir að tungumálið sé nokkuð krefjandi enda er notað annað letur, sem kallast devanagari.

„Hvatning fólks til að læra hindí getur verið mjög mismunandi,“ segir hann. „Oft er þetta fólk sem hefur áhuga á tungumálum, áhuga á Indlandi, jóga eða á indverskan maka.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×