Lífið

Setur tappann í flöskuna fyrir sig og stelpurnar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hödd Vilhjálmsdóttir starfaði lengi í fjölmiðlum og vinnur í dag sem almannatengill.
Hödd Vilhjálmsdóttir starfaði lengi í fjölmiðlum og vinnur í dag sem almannatengill. mynd/Stefán
„Manneskjan er breysk og það á jafnt við um konur og karlmenn. Pabbi minn var það til dæmis og ég er það líka. Áföll markeruðu líf pabba sem dó 11.10.2011, það er fyrir 8 árum í dag. Til að deyfa sig notaði hann oft áfengi.“

Svona hefst stöðufærslu sem almannatengillinn og fjölmiðlakonan Hödd Vilhjálmsdóttir ritar á Facebook en þar talar hún um þau vandamál sem hún sjálf hefur átt í tengslum við áfengi.

„Sjálf hef ég farið í gegnum fjölmörg áföll frá barnæsku og mörg hver virkilega sár. Einu sinni var brosið vopnið mitt til að komast af og eins vitið, penninn og að kunna að koma fyrir mig orði. En það kemur að því að brosið þrýtur eða það nær ekki alltaf lengur til augnanna. Kjaftinn, vitið og valdið á pennanum hef ég þó svo sannarlega enn og tel ég mig yfirleitt nýta það þrennt til góðs.“

Hún segist hafa notað áfengi til að deyfa sársauka frá þrettán ára aldri.

„En svo kom að því að ég missti tökin á því ömurlega misheppnaða deyfilyfi og fór að misnota það fyrir örfáum árum, tök sem ég hafði þó líklega aldrei. Botninn minn var fyrir rúmu ári og ég leitaði mér hjálpar. Hef svo misstigið mig nokkrum sinnum á leiðinni og margir aðrir og ég dæmt mig virkilega hart enda konur að mínu mati dæmdar miklu harðar en karlmenn í þessum efnum, því við erum jú mömmur og virðumst mæta minni skilningi. Mín og stelpnanna minna vegna hef ég sett tappann í flöskuna aftur og ætla aldrei að taka hann úr,“ skrifar Hödd og bætir við að hún hafi fengið hjálp frá traustu fólki en Hödd á í dag tvær dætur. 

„Það að ráða ekki við áfengi hefur verið mér svo mikil skömm síðasta árið. Ég ætla hér með fleygja þeirri skömm út um gluggann og gera mig og stelpurnar mínar stoltar. Því þær og ég erum það eina sem skiptir máli.“


Tengdar fréttir

Hödd og Skúli nýtt par

Almannatengillinn Hödd Vilhjálmsdóttir og athafnamaðurinn Skúli Gunnar Sigfússon, sem jafnan er kenndur við veitingastaðina Subway, eru nýtt par.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×