Innlent

Laxeldi í sjó helsta ógn við villtan lax

Sveinn Arnarsson skrifar
Frá laxeldi í Patreksfirði.
Frá laxeldi í Patreksfirði. Vísir/Einar

Sleppifiskur úr laxeldi, laxalús og sýkingar sem tengjast laxeldi eru stærstu ógnir af mannavöldum við norskan villtan lax.

Núverandi mótvægisaðgerðir í Noregi eru ekki nægjanlegar til að draga úr þessum ógnum. Þetta er mat þrettán vísindamanna við sjö vísindastofnanir í Noregi.

Fjöldi villtra laxa sem skilar sér úr hafi í norskar ár á hverju ári er nú innan við helmingur þess sem var á níunda áratug síðustu aldar. Ástæður fækkunar eru að mati vísindamanna af mannavöldum ásamt minni lífmassa í sjó.

Minnkandi stofnstærð vegna laxa­lúsar mun gera það erfitt að viðhalda sjálfbærum veiðum, sér í lagi í Vestur-Noregi frá Rogalandi í suðri til Mæris og Raumsdals í norðri.

Vísindaráð þessara þrettán vísindamanna er stofnað af umhverfisstofnun Norðmanna. Í því sitja aðeins óháðir vísindamenn. Það metur stöðu villta laxastofnsins og mögulegar ógnir og veitir stjórnvöldum ráðgjöf varðandi laxeldi.

Einar K. Guðfinnsson, formaður stjórnar Landssambands fiskeldisstöðva, hafði ekki lesið skýrsluna er Fréttablaðið ræddi við hann. Hins vegar sagði hann ekki ástæðu til að óttast að það sama gerist á Íslandi.

„Tölur um sleppifisk á Íslandi eru lágar og sama má segja um lús og sýkingar,“ sagði Einar. „Aðstæður í Noregi og á Íslandi eru að mörgu leyti ólíkar. Búið er að búa svo um hnútana með reglugerð að fiskeldi fer fram fjarri okkar helstu ám þannig að aðstæðurnar eru í samanburði mjög ólíkar.“

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, segir sömu hættur vera hér og í Noregi.

„Hér er talsvert um nýrnaveiki og laxalús þar sem menn eru að baða fyrir lúsinni. Einnig sést það á sjóbirtingi og silungi í kringum eldið að miklu meiri sýkingar er að finna í þeim fiski en annars staðar,“ segir Björn.

„Þá eru litlu stofnarnir á suðurfjörðum Vestfjarða farnir að sýna merki erfðamengunar. Búið er svo að tilkynna um tvö sleppislys af fiski í sumar sem mun sjást líkast til á næsta ári í ám hér við land.“


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.