Innlent

Lægð væntanleg á morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Búast má við smáskúrum og suðaustankalda á Suður- og Vesturlandi á morgun.
Búast má við smáskúrum og suðaustankalda á Suður- og Vesturlandi á morgun. Vísir/vilhelm
Í dag má búast við stilltu og yfirleitt þurru veðri víða um land, þökk sé hæðarhrygg sem liggur hér yfir. Sums staðar verður þó dálítil væta sunnanlands. Hiti 3 til 10 stig að deginum en vægt frost í nótt fyrir norðan og austan, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Á morgun má búast við breytingu þar á en þa nálgast lægð úr suðvestri. Á Suður- og Vesturlandi er búist við suðaustankalda með smáskúrum og annað kvöld hvessir við suðvesturströndina. Hægari vindur og víða léttskýjað norðan- og austanlands.

Á fimmtudag er svo útlit fyrir suðaustanstrekking með súld eða rigningu en þurru og björtu veðri norðanlands.

Veðurhorfur á landinu

Hæg austlæg átt, skýjað með köflum og sums staðar dálítil væta S-lands í dag.

Suðaustan 8-13 m/s og smáskúrir á morgun, en hægari og léttskýjað á N- og A-landi.

Suðaustan 13-18 við suðvesturströndina um kvöldið. Hiti 3 til 10 stig að deginum, en víða næturfrost N- og A-lands.

 

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:

Suðaustan 8-13 og dálítil væta, en hægari og léttskýjað N- og A-lands. Suðaustan 13-18 við SV-ströndina um kvöldið. Hiti 3 til 9 stig.

Á fimmtudag og föstudag:

Suðaustan 8-18 m/s, hvassast SV-til. Léttskýjað N-lands, annars skýjað en úrkomulítið. Hiti 5 til 10 stig.

Á laugardag:

Hvöss austanátt og rigning, en þurrt að kalla N-lands. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag og mánudag:

Suðaustanátt og milt veður. Rigning með köflum, en úrkomulítið norðan heiða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×