Innlent

Gekk fram á virka handsprengju við Ásbrú

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Handsprengjan sést hér fyrir miðju á mynd áður en henni var eytt.
Handsprengjan sést hér fyrir miðju á mynd áður en henni var eytt. Mynd/landhelgisgæslan
Vegfarandi gekk fram á handsprengju á Pattersonsvæðinu svokallaða við Ásbrú síðdegis á sunnudag og tilkynnti fundinn til lögreglu. Haft var samband við sprengjusérfræðinga hjá Landhelgisgæslunni, sem eyddu sprengjunni. Talið er að hún hafi verið virk, að því er fram kemur í tilkynningu frá lögreglu á Suðurnesjum.

Lögregla gat ekki veitt frekari upplýsingar um málið þegar leitað var eftir því. Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni er talið að sprengjan hafi verið í jörðu og komið upp á yfirborðið í jarðvegslyftingum. Vel gekk að eyða sprengjunni.

Pattersonsvæðið er gamalt æfingasvæði Bandaríkjahers. Fjöldi sprengja hefur fundist á svæðinu undanfarin ár, einkum við hreinsunarstarf Landhelgisgæslunnar. Gæslan leggur áherslu á að fólk gæti varúðar á svæðinu. Leiki grunur á að um sprengju sé að ræða er mikilvægt að láta lögreglu vita.

Gígurinn sem myndaðist eftir sprengingu.Mynd/Landhelgisgæslan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×