Menning

Risastórt ævintýri og óður til listarinnar

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Það er ekkert hversdagslegt í sýningunni,“ segir Lára Jóhanna um gamanleikinn Shakespeare verður ástfanginn.
„Það er ekkert hversdagslegt í sýningunni,“ segir Lára Jóhanna um gamanleikinn Shakespeare verður ástfanginn. Fréttablaðið/Anton Brink
Maður gerir sitt besta og reynir að hafa sig aðeins til í vinnunni,“ segir Lára Jóhanna Jónsdóttir leikkona brosandi er hún mætir í viðtalið í gervi aðalsmeyjarinnar Víólu. Kjóllinn er forkunnarfagur, efri hlutinn aðskorinn með íburðarmiklum skreytingum í hálsinn og krínólín þenur pilsið út. Hún segir kjólinn vera eitt þeirra listaverka sem búningadeild Þjóðleikhússins hafi töfrað fram í aðdraganda sýningarinnar Shakespeare verður ástfanginn, sem verður frumsýnd annað kvöld. Lokaundirbúningur er í fullum gangi.

„Það er ekkert hversdagslegt í sýningunni, heldur ótrúlega mikil fegurð í búningum og umgjörð. Tónlistin er falleg líka og gefur vídd inn í verkið. Hún er eftir þá bræður Jón Jónsson og Friðrik Dór og þess má geta að söngkonan GDRN tekur þátt í sýningunni og flytur tónlist á sviðinu, lýsir Lára Jóhanna. Hún er að vonum ánægð með að fá annað aðalhlutverkið, sem hún kveðst hafa byrjað að kynna sér í vor. „Ég kíkti á það af og til í sumar til að halda því við en æfingar hófust í ágúst.“

Leikritið er byggt á Óskarsverðlaunamyndinni Shakespeare in Love. Það var frumsýnt í West End í London 2014 og hefur síðan verið sýnt víða við miklar vinsældir. Leikstjóri þess í Þjóðleikhúsinu er Selma Björnsdóttir og með hlutverk Shakespeares fer Aron Már Ólafsson (Aron Mola). „Sýningin er ástarsaga og hún er líka mikill óður til skáldskaparins og listarinnar, risastórt ævintýri sem gaman er að fá að taka þátt í,“ segir Lára Jóhanna. „Sagan öll fær að vera stærri en lífið og fegurðin er stór þáttur í henni.“

Í sýningunni sem gerist á 16. öld takast á ýmis öfl, eins og í flestum góðum sögum og lífið gengur alls ekki snurðulaust fyrir sig, að sögn Láru Jóhönnu. „Þessi unga kona, Víóla de Lesseps, er hefðarstúlka sem er komin á giftingaraldur og á marga vonbiðla. Hún er föst í hefðum þess tíma, þar sem konur hafa engan rétt til að vera annað en hlutir til uppstillingar, skrautmunir. Þær eiga að vera bjargarlausar, það er beinlínis ætlast til þess af þeim. En Víóla ákveður að skapa sér annað líf. Hún fer að klæða sig eins og karlmaður og tekur inntökupróf í leikhús, sem er vissulega ekki hættulaust. Þegar hún er að olnboga sig áfram inn á eitthvert svæði sem er alls ekki ætlað henni kynnist hún leikskáldinu Shakespeare. Þar með fer þeirra saga af stað og nú vil ég ekki segja meira!“

Lára Jóhanna bendir á að líta megi á leikritið sem skáldsögu um það hvernig Rómeó og Júlía hafi mögulega orðið til. „Með svona stóra höfunda eins og Shakespeare, veltir maður oft fyrir sér hvernig þeir hafi fengið hugmyndir að sínum verkum, til dæmis ­hvaðan innblástur að ástarsögunni um Rómeó og Júlíu hafi komið.“

Shakespeare verður ástfanginn er stórsýning. Í henni eru tuttugu og fjórir leikarar og fullt af sviðsfólki og dresserum, að sögn Láru Jóhönnu.

„Þetta er fjörug sýning. Það gerist allt mjög hratt baksviðs og ekkert gengur upp nema allar starfsdeildir séu algerlega með sitt á hreinu. Hringsviðið er stöðugt á ferðinni og eins gott að vera klár á því hvar maður á að standa og hvernig maður á að snúa!“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×