Lífið

Skærustu stjörnur Filippseyja kyssast undir íslenskum norðurljósum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Kathryn Bernardo og Daniel Padilla hafa verið par um árabil. Þau eru dýrkuð og dáð í heimalandinu.
Kathryn Bernardo og Daniel Padilla hafa verið par um árabil. Þau eru dýrkuð og dáð í heimalandinu. Skjáskot/Instagram
Filippseyska stjörnuparið Kathryn Bernardo og Daniel Padilla er statt hér á landi ef marka má Instagram-færslu þeirrar fyrrnefndu. Bernardo og Padilla, sem bæði eru leikarar, njóta gríðarlegra vinsælda í heimalandinu.

„Norðurljósin ákváðu að mæta fyrsta daginn okkar hér, næstum eins og þau væru að bjóða okkur velkomin. Takk fyrir að mæta, Aurora Borealis! Endilega endurtakið leikinn næstu daga,“ skrifaði Bernardo við þrjár norðurljósamyndir sem hún birti á Instagram-reikningi sínum í gær.

Fyrr um daginn birti hún myndir úr Bláa lóninu, sem þau Padilla heimsóttu strax eftir að þau stigu út úr flugvélinni.

Bernardo er 23 ára og skaust upp á stjörnuhimininn með hlutverki sínu sem titilpersónan Mara í filippseysku sjónvarpsþáttunum Mara Clara. Færa má rök fyrir því að hún sé vinsælasta leikkona Filippseyja en kvikmyndin Hello Love Goodbye, sem frumsýnd var í vor, er sú tekjuhæsta í sögu landsins. Samanlagðar tekjur kvikmynda hennar eru jafnframt þær hæstu þegar litið er til einstakra leikkvenna og hún státar af nær tíu milljón fylgjendum á Instagram.

Bernardo og Padilla hafa verið par um árabil. Padilla, sem er ári eldri en kærastan, er ekki síður vinsæll á Filippseyjum og hefur gert garðinn frægan sem bæði leikari og söngvari. Þá hefur hann verið krýndur óformlegur „Hjartakonungur“ filippseysks skemmtanaiðnaðar, ef marka má Wikipedia-síðu hans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×