Innlent

Ríkisendurskoðun með ársreikning ÁTVR til meðferðar

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
ÁTVR aðgreinir ekki reksturinn milli áfengis og tóbaks.
ÁTVR aðgreinir ekki reksturinn milli áfengis og tóbaks. Fréttablaðið/Eyþór
Ríkisendurskoðun hefur nú til skoðunar hvort ársreikningur ÁTVR sé fullnægjandi og samrýmist kröfu sem gerð er til ríkisfyrirtækja um að rekstur skili viðunandi arðsemi. Hagnaður ársins 2018 var rúmur 1,1 milljarður en líkur eru á að hagnaðurinn sé allur á tóbakssölunni en tap á áfengissölu.

Ársreikningurinn var birtur í mars en í sumar barst embættinu erindi þar sem dregið er í efa að reikningurinn samrýmist viðunandi arðsemiskröfu. Á það þá við áfengishlutann því í erindinu, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, er reikningurinn greindur og leiddar líkur að því að taprekstur sé á þeirri hlið starfseminnar.

Í lögum um starfsemi ÁTVR segir að miðað sé við að reksturinn sé hagkvæmur og afli tekna til að greiða rekstrarkostnað og skila hæfilegum arði til ríkissjóðs.

„Málið er í meðferð,“ sagði Skúli Eggert Þórðarson ríkisendurskoðandi en að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig um málið. En samkvæmt embættinu er ábyrgð þess falin í að meta í heild sinni hvort ársreikningurinn gefi glögga mynd af undirliggjandi viðskiptum og atburðum.

Aðspurð um málið sagði Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, að ríkisfyrirtækið sinni smásölu áfengis og heildsölu tóbaks. „Reksturinn miðar við þetta hlutverk og er því ein heild sem skýrir hvers vegna rekstrargjöld eru ekki sundurliðuð enda margir þættir í starfseminni sem sinna bæði áfengi og tóbaki.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×