Innlent

Býst ekki við breiðri and­stöðu gegn sam­göngu­sam­komu­laginu

Andri Eysteinsson skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Samgönguráðherra segist ekki búast við breiðri andstöðu gegn nýundirrituðum sáttmála um uppbyggingu á samgönguinnviðum og almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

Þó hefur Miðflokkurinn tekið afstöðu gegn sáttmálanum og segir ráðherra það ekkert nýtt að Miðflokkurinn tali með þeim hætti.

„Á þinginu í fyrravetur var rætt mikið um veggjöld. Formaður umhverfis- og samgöngunefndar, Bergþór Ólason, var sá sem var helsti talsmaður þess að setja á veggjöld um allt land. Það kemur að einhverju leyti á óvart en kannski alls ekki að Miðflokkurinn skuli allt í einu tala í hina áttina akkúrat núna, sagði Sigurður Ingi Jóhannsson í þjóðmálaþættinum Víglínunni á Stöð 2 í dag.

Málið hafi verið rætt innan flokka í vetur

Sigurður sagði enn fremur að slíkt væri ekkert nýtt í pólitík Miðflokksins. „Við getum spilað margar ræður eftir Bergþór Ólason og jafnvel aðra úr Miðflokknum um þetta atriði í fyrravetur. Ég á ekki von á breiðri andstöðu um þetta,“ sagði ráðherrann.

Sigurður minntist þá á hina fjölmörgu flokka sem eru í meirihlutum sveitastjórna höfuðborgarsvæðisins. Sagði ráðherra að þó að ekki ættu allir þingflokkar sína fulltrúa í meirihlutum hafi líkast til verið fjallað um málið innan þeirra flokka sem eiga fulltrúa í sveitastjórnum.

Samgönguráðherra sagði þá að sveitarfélögin og ríkisstjórnin ættu að breyta umræðuaðferðum sínum, hætta að ræða samgöngumál sín á milli í fjölmiðlum og ættu að setjast saman og flétta saman hugmyndir sínar.

„Allir myndu viðurkenna að þeirra eina lausn væri ekki lausnin, heldur yrðu allir að gefa aðeins eftir og flétta saman þessar mismunandi lausnir til þess að við náum utan um verkefnið,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra í Víglínunni á Stöð 2 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×