Innlent

Bjartsýni á aukin viðskipti Íslands og Indlands

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Ram Nath Kovind, forseti Indlands, fór af landi brott núna síðdegis eftir þriggja daga heimsókn. Í dag sótti hann málþing um viðskipti á Hilton Reykjavík Nordica þar sem viljayfirlýsingar um frekari viðskipti voru undirritaðar.

Forsetar Íslands og Indlands voru mættir á málþingið í morgun líkt og fjöldi indverskra og íslenskra athafnamanna. Héldu þeir hvor sína ræðuna og hvöttu til aukinna samskipta á milli ríkjanna.

Guðni sagði frá því að við kvöldverðarborðið í gær hafi hann sagt indversku forsetahjónunum söguna af Jóni Ólafssyni Indíafara. Á málþinginu sagðist hann vona að Indíafararnir yrðu fleiri.

Og Kovind var sammála. Sagði í sinni ræðu að tækifæri væru til þess að efla samstarf á sviði fjárfestinga, þjónustu, rannsókna og nýsköpunar svo fátt eitt sé nefnt.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka Iðnaðarins undirritaði fyrir hönd SI viljayfirlýsingu við indversk systursamtök um frekari samvinnu á sviði viðskipta. Sagði hún að það væru mikil tækifæri í auknum viðskiptum.

Og Prasoon Dewan, formaður Indversk-íslensku viðskiptasamtakanna, tók fram að þrjú indversk fyrirtæki hafi til viðbótar undirritað sams konar viljayfirlýsingu með íslenskum fyrirtækjum. „Við erum afar vongóð um að fleiri yfirlýsingar verði undirritaðar og að þessi samskipti leiði til aukinna viðskipta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×