Innlent

Gul við­vörun á suð­vestur­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Á morgun er útlit fyrir sunnan 8-13 m/s og áfram vætusamt með um 10 stiga hita.
Á morgun er útlit fyrir sunnan 8-13 m/s og áfram vætusamt með um 10 stiga hita. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa og Suðurlandi en von er á mikilli rigningu.

Á vef Veðurstofunnar segir að búast má megi við auknu afrennsi og vatnavöxtum í ám og lækjum sem auki hættu á flóðum og skriðuföllum og geti valdið tjóni og raskað samgöngum. Einnig sé aukið álag á fráveitukerfi og er fólk hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

„Í dag verður suðaustan- og austanátt hjá okkur, strekkingsvindur allvíða, en allhvass eða hvass staðbundið með suðurströndinni og á Reykjanesskaga. Það er tiltölulega hlýr loftmassi sem er að færast yfir landið, en jafnframt er loftið þrútið af raka. Það mun því rigna talsvert í dag og jafnvel mikið sums staðar á Suður- og Vesturlandi. Minni úrkoma um landið norðaustanvert, þó þar fari einnig að rigna uppúr hádegi.

Á morgun er útlit fyrir sunnan 8-13 m/s og áfram vætusamt með um 10 stiga hita. Úrkomulítið austanlands og þar verður hlýrra eða allt að 17 til 18 stig þar sem best lætur.

Það er skemmst frá því að segja að á föstudag og laugardag gera spár ráð fyrir að sunnanáttin haldi áfram með talsverðri rigningu. Líkur eru á að á einhverjum tímapunkti rofi til í norðausturfjórðungi landsins og þá verður hlýtt á þeim slóðum í hnjúkaþey,“ segir á vef Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×