Innlent

Varði doktorsritgerð sína 78 ára gömul

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Flaggað var fyrir utan Háskóla Íslands í dag þegar Björk Guðjónsdóttir varði doktorsritgerð sína í mannfræði. Björk er fædd 1941, því 78 ára gömul og einn elsti nemandi skólans til að ljúka doktorsnámi. Hún hóf ung að árum nám í hjúkrunarfræði við Hjúkrunarkvennaskóla Íslands og vann sem hjúkrunarfræðingur alla sína starfsævi.

„Ég byrjaði 1. mars 1967 inni á Kleppi að vinna þar sem hjúkrunarfræðingur og síðan þegar að geðdeildarbyggingin var opnuð hérna niðri við Hringbraut þá fór ég að vinna þar. Ég hætti 2003 og þá fór ég beint í Háskólann,“ segir Björk.

Hún segir sér ekki hugnast aðgerðarleysi og því hafi hún farið í nám þegar að hún hætti að vinna.

„Ég gat ekki séð mig gerast eftirlaunaþegi og sitja heima og prjóna því ég er alltof energísk til þess að gera það svoleiðis og svo hafði ég áhuga fyrir mannfræði,“ segir Björk.

Henni hafi því dottið í hug að kíkja í Háskólann. Hún hafi ekki ætlað að vera þar lengi en þar sé hún enn sextán árum síðar.

Björk segir ritgerð sína fjalla um mál sem sé henni mjög hugleikið.

„Ég var að skrifa um Al-anon og hvernig sjálfsmynd breytist hjá konum sem eru langtímaþátttakendur. Því breytingin sem verður á þeim veldur því að þetta verða mjög sjálfstæðar konur og sterkar konur finnst mér. Þær læra að takast á við hlutina öðruvísi heldur en þær gerðu sem að er mjög athyglisvert að fylgjast með og sjá,“ segir Björk.

Aðspurð um það hvort hún geti hugsað sér að fara í frekara nám segir hún að allt sé óráðið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.