Innlent

Á svipinn „eins og hún hafi verið beðin um að veita einhverjum kapítalista verðlaun“

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Almannatengill segir að forsætisráðherra hafi komist ágætlega frá heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Með svipbrigðum sínum hafi hún sýnt kjósendum afstöðu sína til fundarins.

Andrés Jónsson, almannatengill, segir að heimsókn Mike Pence, varaforseta bandaríkjanna, hafi virkað á sig sem einskonar ímyndarherferð Bandaríkjanna, í baráttu þeirra við Kína og Rússland um almenningsálitið á Vesturlöndum.

„Hann stoppar í nokkra klukkutíma bara eins og frambjóðandi myndi gera. Ég ætla að koma við hérna á Húsavík, en ég ætla ekkert að gista þar, en ég ætla að taka í spaðann á öllum í kvenfélaginu og svo framvegis,“ segir Andrés. 

Varaforsetinn hafi verið alveg tilbúin með hvað hann ætlaði að segja við fjölmiðla. „Hann var með skýr skilaboð: takk fyrir að vera með okkur en ekki Kínverjum," segir Andrés. 

Þá hafi allir fengið sitt út úr heimsókninni og forsætisráðherra hafi komist ágætlega frá þessari heimsókn. 

„Þessi hittingur þeirra var eiginlega bara mjög góður PR hittingur fyrir hana. Af því að hún var á svipinn eins og hún hafi verið beðin um að veita einhverjum kapítalista verðlaun fyrir arðbærustu fjárfestingu í einkarekna heilbrigðiskerfinu síðasta árs. Það var eins og hana langaði alls ekki að vera þarna sem er bara fínt, því þá sjá hennar kjósendur það,“ segir Andrés.

Þá sýnist hverjum sitt um heimsókn varaforsetans en fréttastofa tók nokkra á tal í dag.

„Fyrirtækin sem voru þarna allt í kring og hengdu upp gay-pride fánann, mér fannst það rosalega góð skilaboð,“ segir Kjartan Páll Sveinsson.

„Það er bara besta mál að hann komi hingað til lands. Hann er varaforseti Bandaríkjanna og það þarf að taka á móti honum í samræmi við þá stöðu sem hann gegnir,“ segir Bjarni Randver Sigurjónsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×