Innlent

Skrifar undir loftlagsmarkmið og stóreykur olíuleit á sama tíma

Kristján Már Unnarsson skrifar
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, í Viðey í síðustu viku.
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, í Viðey í síðustu viku. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
Norðmenn eru að stórauka olíuleit í Barentshafi á sama tíma og forsætisráðherra þeirra undirritar yfirlýsingar í Reykjavík um aðgerðir í loftlagsmálum. Erna Solberg segir þetta vel geta farið saman enda sé olíuvinnsla Noregs með hærri umhverfiskröfum en annarra. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. Loftlagsmálin og norðurslóðir voru efst á blaði á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Reykjavík í síðustu viku, einnig á fundi þeirra með Þýskalandskanslara í Viðey.

Vinnslupallurinn Golíat vinnur olíu á nyrsta olíusvæði Noregs, sem er í Barentshafi norðan heimskautsbaugs.
En á sama tíma og ráðherrarnir samþykkja nýja framtíðarsýn fyrir Norðurlöndin til næstu tíu ára með aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og sjálfbæra þróun í forgrunni fjölgar olíuborpöllum í lögsögu Noregs í Barentshafi.Gasvinnsla hófst þar árið 2007 og olíuvinnsla árið 2016 og undir forystu Ernu Solberg er norska ríkisstjórnin nú að stórauka olíuleit á svæðinu, og lætur ítrekuð mótmæli Grænfriðunga ekki hafa áhrif á þá stefnumörkun. Þannig buðu norsk stjórnvöld út 90 leitarblokkir í vor, þar af 46 í Barentshafi, en umsóknarfrestur um leitarleyfin rann út í þessari viku.

Skip Greenpeace í mótmælaaðgerðum við norskan borpall í Barentshafi árið 2014.Mynd/Greenpeace.
Við spurðum Ernu Solberg að loknum Viðeyjarfundinum hvort það gæti farið saman að tala hátíðlega um norðurslóðir og loftlagsmál en vera á sama tíma að stórauka olíuleit í Barentshafi? „Já,“ svarar hún.„Því það er fyrst og fremst notkunin sem ræður úrslitum en ekki framleiðslan. Því að ef það væri ekki hagkvæmt að framleiða þá yrði engin framleiðsla. Þannig að þetta eru helstu takmarkanirnar sem verða til staðar." 

Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, í viðtali við Stöð 2 í Viðey.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.
„Og svo er mikilvægt að við framleiðum olíu með miklu minni losun en tíðkast, með miklu hærri umhverfiskröfur en tíðkast, setjum meiri kröfur um minni losun í sjálfu framleiðsluferlinu,“ sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs. Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Saka Norðmenn um að leika tveimur skjöldum í loftslagsbaráttunni

Norðmenn hafa rekið metnaðarfulla loftslagsstefnu heima fyrir á sama tíma og þeir eru stærstu útflytjendur jarðefnaeldsneytis í Evrópu. Í nýrri skýrslu sem stór náttúruverndarsamtök standa á bak við er bent á það sem er kallað „hugarmisræmi“ Norðmanna hvað þetta varðar.

Úthluta metfjölda sérleyfa en hætta við Drekasvæðið

Ákvörðun norskra stjórnvalda um að draga ríkisolíufélagið Petoro út úr olíuleit á Drekasvæðinu var tekin daginn eftir að inn í ríkisstjórnina kom nýr flokkur, sem eindregið hefur barist gegn því að Jan Mayen-svæðið yrði opnað til olíuleitar.

Kveðst vonbetri eftir fund ráðherranna

Aðgerða er þörf í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Þetta sögðu forsætisráðherrar Norðurlandanna auk Þýskalandskanslara á blaðamannafundi í Viðey í gær. Forsætisráðherra Finna sagðist bjartsýnni í gær en fyrir fundinn.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.