Innlent

Sá eini sem vildi í viðtal eftir sýningu Héraðsins á Sauðárkróki var bóndi sem aldrei hefur reitt sig á kaupfélagið

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar

Eini bíógesturinn sem gaf kost á viðtali eftir að kvikmyndin Héraðið var frumsýnd á Sauðárkróki í gær var eldri bóndi sem segist aldrei hafa þurft að reiða sig á Kaupfélag Skagfirðinga.

Skagfirðingar virðast vera nokkuð spenntir fyrir myndinni sem að sögn leikstjórans er byggð á Kaupfélagi Skagfirðinga og sögum úr Skagafirði.  Sigurbjörn Björnsson, framkvæmdastjóri Króksbíó var í það minnsta sáttur við viðtökurnar þegar fréttamaður ræddi við hann um sýninguna í gærkvöldi.

„Þær hafa verið mjög góðar. Það var uppselt, við erum með sölu í gegnum síma og það var uppselt á fyrstu tvær sýningarnar og komið á þriðju sýninguna sem verður á sunnudaginn,“ sagði Sigurbjörn.

Sigurbjörn Björnsson rekur Króksbíó með fjölskyldu sinni. Vísir/Tryggvi Páll

Héraðið segir af baráttu Ingu, miðaldra kúabónda, sem gerir uppreisn gegn kaupfélaginu á staðnum. Upphaflega átti myndin að vera heimildarmynd um Kaupfélag Skagfirðinga, en erfiðlega gekk að fá heimamenn að tjá sig opinberlega um félagið.

Erfiðlega gekk að fá bíógesti í viðtal eftir sýninguna

Það var sami veggur og fréttamaður rak sig á eftir sýninguna í gær, en glögglega mátti þó heyra að bíógestir könnuðust við ýmis atriði úr myndinni. Sá eini sem vildi tala við fréttamann var Margeir Björnsson, bóndi í Skagafirði, sem segir myndina lýsa Skagafirði nokkuð vel.

„Landbúnaðurinn hér í Skagafirði er til dæmis þannig að fé er flutt utan á Fljótum, 100 kílómetra upp á fjöll og þar ber almenningur fyrir það á kostnað Landgræðslunnar. Þetta er kallaður hagvöxtur,“

Hverjir bera ábyrgð á því?

Margeir Björnsson, bóndi í Skagafirði. Vísir/Tryggvi Páll

„Nú þeir sem stjórna Skagafirði.“

Hverjir eru það?

„Nú það var verið að draga það fram í myndinni hverjir stjórna honum,“ sagði Margeir í spjalli við fréttamenn skömmu eftir að sýningunni lauk.

Hann segist þó ekki hafa kynnst raunum söguhetju myndarinnar á eigin skinni.

„Í sjálfu sér ekki því að ég hef aldrei verið þannig settur að þurfa á stórfyrirgreiðslu Kaupfélagsins að halda. Og ég er þannig skoðunar að atvinnurekstur eigi vera þannig að skila eigandanum en ekki þjónustuaðilanum.“

Klippa: Héraðið - sýnishorn


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.