Innlent

Borgarfulltrúar vilja lækka hámarkshraða á Reykjavegi

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá Reykjaveginum í Laugarneshverfi.
Frá Reykjaveginum í Laugarneshverfi. Vísir

Svo gæti farið að hámarkshraði á Reykjavegi í Laugarneshverfi Reykjavíkur verði lækkaður úr 50 kílómetra hámarkshraða í 30 ef borgarfulltrúar sem búa í grennd við veginn fá einhverju ráðið.

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, bar þessa tillögu upp í Facebook-hópi sem ætlaður er íbúum Laugarneshverfis. Katrín er í samgöngu- og skipulagsráði borgarinnar og hefur skoðað Reykjaveginn sérstaklega þar sem hann stendur henni nærri.

Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Á Katrín barn sem er að byrja í skóla og þarfa að fara yfir Reykjaveginn mörgum sinnum í viku eins og fjöldi annarra barna. Hún bendir á að það hafi verið rætt í mörg ár að gera leiðina við Reykjaveginn betri fyrir gangandi.

Katrín segir það vekja furðu sína að hámarkshraði á veginum sé að hluta 50 kílómetrar á klukkustund og spyr hvort íbúar í Laugarneshverfi séu ekki flestir sammála því að það færi betur á að hámarkshraði væri 30 kílómetrar á klukkustund á veginum öllum.

Og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Margir hafa blandað sér í umræðuna og lang flestir þegar þetta er ritað sammála Katrínu.

Þar á meðal Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borginni, sem vill þar að auki að hámarkshraði á öllum götum Laugarneshverfisins verði 30 kílómetrar á klukkustund.

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir Pírati, sem er formaður skipulags- og samgönguráðs borgarinnar, segir tillögu Katrínar vera borðleggjandi og að hún verði tekin upp á næsta fundi ráðsins. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.