Innlent

Áfrýjar sex ára dómi fyrir stórfellda líkamsárás

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árásin átti sér stað í Vestmannaeyjum í september 2016.
Árásin átti sér stað í Vestmannaeyjum í september 2016. Vísir/Einar Árnason
Hafsteinn Oddsson, sem dæmdur var í júlí síðastliðnum í sex ára fangelsi fyrir stórfellda líkamsárás, hefur áfrýjað dómi Héraðsdóms Suðurlands til Landsréttar.

Frá þessu er greint á vef Morgunblaðsins og haft eftir Lúðvík Bergvinssyni, verjanda Hafsteins, að tekin hafi verið ákvörðun um að áfrýja strax í kjölfar þess að dómur var kveðinn upp fyrr í sumar.

Árásin átti sér stað í Vestmannaeyjum í september 2016. Hún vakti mikinn óhug en fórnarlambið, kona, var illa útleikin eftir árásina. Konan fannst á vettvangi um miðja nótt og var líkamshiti hennar rétt yfir 35 gráðum.

Hafsteini var gefið að sök að hafa framið líkamsárás framan við skemmtistaðinn Lundann með því að hafa slegið konuna einu höggi í andlitið þannig  að hún féll við.

Honum var einnig gefið að sök að hafa framið stórfellda líkamsárás, brot gegn blygðunarsemi og hættubrot, með því að hafa skömmu eftir atvikið sem lýst er hér að ofan, aftur veist að  konunni með ítrekuðum höggum og spörkum í andlit og líkama, klætt hana úr öllum fötunum og því næst yfirgefið hana þar sem hún lá nakin, mikið slösuð og án bjargar í götunni.

Að mati dómsins var það hafið yfir skynsamlegan vafa að Hafsteinn hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum var gefin að sök.

Þá hafi árásin verið ofsafengin og að tilefnislausu auk þess sem Hafsteinn klæddi konuna úr öllum fötunum með harðræði og skildi hans svo eftir bjargarlausa með öllu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.