Sport

Dramadrottning NFL-deildarinnar auglýsir eftir hjálmi á Twitter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Antonio Brown elskar myndavélarnar og það sem hann sér í speglinum.
Antonio Brown elskar myndavélarnar og það sem hann sér í speglinum. Getty/Kevin Mazur/G

Það hefur verið afar erfitt að vera NFL-leikmaðurinn Antonio Brown í haust í það minnsta ef maður spyr hann sjálfan.

Fyrstu vikur eins besta útherja deildarinnar hjá Oakland Raiders hafa verið ein löng sápuópera og heimurinn fær að fylgjast með dramadrottningu NFL-deildarinnar bæði í gegnum bandaríska miðla sem og gegn Hard Knocks þáttinn sem verður sýndur á Stöð 2 Sport en fyrsti þátturinn verður sýndur í kvöld.

Antonio Brown mætti í æfingabúðir Oakland Raiders í loftbelg og vitnaði síðan í Muhammad Ali með orðinum „Float like a butterfly, sting like a bee“ nema að hann breytti bee í AB sem er skammstöfun fyrir nafnið hans. Brown hefur hins vegar verið algjörlega bitlaus á æfingunum.

Það er ekki nóg með að Antonio Brown hafi fryst á sér iljarnar í kæliklefanum og hefur lítið getað æft af þeim sökum þá er NFL-deildin hörð á því að skikka hann til að spila með nýjan hjálm á komandi tímabili.

Antonio Brown hefur verið einn allra besti útherji NFL-deildarinnar undanfarin ár en þá spilaði hann með Pittsburg Steelers. Steelers fékk hins vegar nóg af stjörnustælunum í karlinum og skipti honum til Oakland Raiders í sumar.Antonio Brown fékk að vita það í fyrra að hann yrði að skipta um hjálm. Síðasta tímabil átti því að fara í að leita sér að nýjum leyfilegum hjálm það er hjálm sem stenst nýjar strangari öryggiskröfur NFL.

Antonio Brown pældi hins vegar ekkert í því og kærði síðan þá ákvörðun NFL-deildarinnar að þvinga hann í að skipta um hjálm í haust. Hann hótaði því meðal annars að hætta í NFL-deildinni en stóð síðan ekki við það þegar áfrýjun hans var hafnað.

Nýjasta útspil útherjans er síðan að auglýsa eftir hjálmi á twitter en hjálmurinn verður að vera framleiddur 2010 eða síðar. Brown lofar að láta viðkomandi fá áritaðan Oakland Raiders hjálm sem hann hefur nota sjálfur á æfingum. Hér fyrir neðan má sjá tilboðið frá Antonio Brown.


NFL


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.